Erlent

„Þetta er allt að springa á sama tíma“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jóhanna Neto hefur undanfarið dvalið í Portúgal, þar sem miklir gróðureldar geisa.
Jóhanna Neto hefur undanfarið dvalið í Portúgal, þar sem miklir gróðureldar geisa. Samsett

Ekkert lát er á gríðarlegum gróðureldum í hitabylgju á meginlandi Evrópu. Þúsundir hafa flúið heimili sín og mörg hundruð eru látin vegna hitans. Íslendingur í Portúgal lýsir skelfilegum aðstæðum þar sem eldarnir loga.

Þúsundir slökkviliðsmanna berjast við gróðurelda í Portúgal, suðvesturhluta Frakklands og á Spáni. Flugmaður fórst við slökkvistörf í norðurhluta Portúgal þegar flugvél hans brotlenti rétt við spænsku landamærin. 

Jóhanna Neto hefur dvalið í nágrenni gróðurelda í Portúgal síðustu daga en er nú stödd í 45 stiga hita í Lissabon.

„Þetta er búið að vera alls staðar í gangi. Og þetta er alveg ótrúlega hræðilegt og erfitt af því að maður vaknar og það fyrsta sem maður finnur er lyktin af eldinum. Og maður þarf að vera með glugga lokaða og maður fer út og það er eins og það sé þoka nema þetta er ekki þoka. Þetta er bara askan af eldinum. Það er smá erfitt að anda líka og maður fær illt í augun,“ segir Jóhanna.

Sárt að sjá heimili fólks fuðra upp

Jóhanna, sem er hálfportúgölsk, hefur einnig fylgst vel með umfjöllun um hamfarirnar í fjölmiðlum. Það hryllilegasa sé að sjá heimili fólks og lífsviðurværi fuðra upp á nokkrum sekúndum - og viðbragðsaðilar ráði varla við eldana.

„Þannig að fólk á ekki tíma til að fara á hvern einasta stað til að slökkva eldana sem eru í gangi því það er ekki nógu mikið fólk til þess. Þetta er allt að springa á sama tíma,“ segir Jóhanna.

Yfir 12 þúsund manns hafa flúið heimili sín í Frakklandi og á þriðja þúsund í grennd við Costa del Sol á Spáni. Hitabylgjan sem gengur yfir meginland Evrópu er nú sögð hafa dregið á fjórða hundrað til dauða í Portúgal og á Spáni. Þá hafa önnur lönd ekki farið varhluta af hamförunum - neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Pódalnum á Ítalíu þar sem samnefnd á er sums staðar orðin að lækjarsprænu og heill bær í norðurhluta Marokkó þurrkaðist út í miklum gróðureldum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×