Sport

Kol­beinn snýr aftur í hringinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kolbeinn er klár í slaginn.
Kolbeinn er klár í slaginn. Beggi Dan

Hnefaleikakappinn Kolbeinn Kristinsson snýr aftur í hringinn þann 10. ágúst næstkomandi er hann mætir Rodney Moore í Detroit í Michigan-ríki í Bandaríkjunum.

Hinn 34 ára gamli Kolbeinn, eða Kolli eins og hann er nær alltaf kallaður, hefur ekki keppt síðan árið 2020 en kórónuveiran setti gríðarlegt strik í reikninginn. Hann hefur æft eins og skepna að undanförnu og segist klár í slaginn.

„Er mjög spenntur að fá loksins að berjast aftur. Ég átti að berjast þann 10.júní á Showtime en andstæðingurinn hætti við og það var ekki nægur tími til að finna nýjab andstæðing. Nú þegar það er loksins komið að þessu þá hlakka ég til að setja allt sem ég er búin að vera að vinna í síðustu tvö árin saman og stoppa hann eins fljótt og ég mögulega get,“ sagði Kolli um komandi bardaga en Moore er einkar reyndur hnefaleikakappi.

Kolbeinn er einnig reynslumikill og hefur stundað ólympíska hnefaleika í rúm 15 ár. Er hann sem stendur eini atvinnukarlkyns hnefaleikakappinn hér á landi. Hann hefur unnið alla sína 12 bardaga sem atvinnumaður, þar hafa sex unnist með rothöggi.

Kolbeinn kemur vel undirbúinn inn í bardagann gegn Moore en hann hefur æft undir styrkri handleiðslu Sugar Hill en sá þjálfaði til að mynda heimsmeistarann Tyson Fury. Það má því búast við Kolla í fantaformi er hann stígur inn í hringinn í Detroit þann 10. ágúst næstkomandi.

Kolbeinn Kristinsson hefur unnið alla 12 bardaga sína sem atvinnumaður.Beggi Dan
Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×