Þríþraut er mjög krefjandi íþrótt en í keppni helgarinnar á Laugarvatni þá synti hún 1,5 kílómetra, hjólaði 45 kílómetra og hljóp 10 kílómetra.
Katrín segir frá því í viðtali við Fréttablaðið í dag að hún er að ná þessum árangri eftir að hafa sigrast á sjaldgæfu lungnakrabbameini árið 2019. Katrín er vegna veikindanna aðeins með heilt lunga vinstra megin en hálft hægra megin.
„Árið 2019 fékk ég krabbameinið sem Tómas (Guðbjartsson, Lækna-Tómas) skar í burtu en þrátt fyrir það fór ég fimm vikum síðar í hálfan Járnkall í Indónesíu og náði góðum tíma,“ segir Katrín í viðtalinu við Fréttablaðið.
Katrín kvartar ekki þrátt fyrir að vanta hálft lunga og vera að keppa í þessari miklu þolgrein.
„Ég varð aldrei veik í hausnum þannig að ég spáði aldrei neitt mikið í þessu. Ég hélt bara áfram að æfa og er almennt ekkert að velta þessu fyrir mér. Ég get ekki breytt neinu þannig að ég er frekar í gleðinni,“ sagði Katrín í viðtalinu sem má sjá allt hér.
Katrín starfar sem fjármálastjóri hjá Bolungarvíkurkaupstað og æfir tvisvar á dag, fyrir vinnu og svo seinni partinn eftir að skyldustörfum lýkur.
Hún er strax mætt í aðra keppni því í dag hefst Örnu-hjólreiðakeppnin þar sem hjólaðir eru heilir 960 kílómetrar um Vestfirði og þar er Katrín meðal keppenda.