Fótbolti

For­seti PSG sýknaður í annað sinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nasser Al-Khelaifi, forseti PSG.
Nasser Al-Khelaifi, forseti PSG. Sebnem Coskun/Getty Images

Nasser Al-Khelaifi, forseti Frakklandsmeistara París Saint-Germain, hefur verið sýknaður öðru sinni. Hann var ásakaður um að mútur og spillingu er kom að sölu sjónvarpsrétts HM í knattspyrnu sem fram fer í Katar síðar á þessu ári.

Al-Khelaifi var í dag sýknaður öðru sinni en málið var tekið fyrir í Sviss líkt og önnur mál tengd Alþjóðaknattspyrnusambandinu. Ásamt því að vera forseti er Al-Khelaifi einnig forseti beIN fjölmiðlasamsteypunnar sem staðsett er í Katar.

Hinn 48 ára gamli var ásakaður um að hafa selt sjónvarpsrétt mótsins undir borðið ásamt Jerome Valcke, fyrrverandi ritara FIFA. 

Valcke fékk 11 mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir mútur og að skila inn fölsuðum gögnum. Hann var á sínum tíma hægri hönd Sepp Blatter, fyrrverandi forseta FIFA.

Ólíkt Valcke er Al-Khelaifi laus allra mála eftir úrskurð dagsins. Lögfræðingur hans segir að loks sé réttlætinu fullnægt en málaferli hafa staðið yfir í tæp sex ár. 

Bætti lögfræðingurinn við að tími hafi verið til kominn að nafn Al-Khelaifi væri hreinsað þar sem ákæruvaldið hafi hunsað bæði staðreyndir og lögin sjálf á meðan málinu stóð.

Sky Sports greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×