Innlent

Vilja stuðla að auknu val­frelsi um hvar fólk vinnur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir er þingmaður Viðreisnar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir er þingmaður Viðreisnar. Vísir

Þingflokkur Viðreisnar vill að vinnumarkaðsráðherra skoði tækifæri í fjarvinnu og móti fjarvinnustefnu fyrir íslenskan vinnumarkað. Þingmaður segir að skrifstofan sé ekki eini vinnustaðurinn sem er í boði og aukið valfrelsi um að vinna heima sé af hinu góða.

Þingmenn Viðreisnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að þingið feli Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra að framkvæma úttekt á tækifærum í fjarvinnu og fjarvinnustefnu fyrir íslenskan vinnumarkað.

Samkvæmt tillögunni ætti úttektinni að vera lokið fyrir árslok 2022 og niðurstöður hennar kynntar fyrir Alþingi næsta vor. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, segir tækifæri geta falist í aukinni fjarvinnu hér á landi.

„Þar var ég með í huga að við drögum lærdóm af heimsfaraldrinum. Það var margt þar sem okkur þótti erfitt, en þessi tími leiddi af sér nýja hugsun og nýja nálgun um það að skrifstofan sé kannski ekki eini vinnustaðurinn.“

Fjarvinna þar sem fjarvinna hentar

Þorbjörg vonast til að úttektin leiði í ljós ávinninginn sem fjarvinna getur haft í för með sér.

„Fólk talar um betri einbeitingu, meiri framleiðni, aukið jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Það felast í þessu tækifæri fyrir fólk á landsbyggðinni, að það geti unnið vinnuna sína óháð staðsetningu. Þetta er til þess fallið að draga úr umferð og hafa jákvæð áhrif á samgöngur og styðja við loftslagsmarkmið stjórnvalda.“

Kannanir um Evrópu sýni ánægju starfsfólks og yfirmanna með fjarvinnu. Þorbjörg segir mikilvægt að fólk hafi val.

„Auðvitað á fjarvinna ekki við í öllum störfum. Það blasir auðvitað við, og hún hentar ekki öllu fólki. En þar sem hún á við, getur þetta atriði, valfrelsi og að hafa meira um sín mál að segja, stuðlað að þessum jákvæðu þáttum sem ég nefndi,“ segir Þorbjörg Sigríður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×