Innlent

Svöruðu kallinu og skjótast með atkvæði til „Sunny Kef“

Margrét Helga Erlingsdóttir, Snorri Másson og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Sverrir Helgason var ekki lengi að hugsa sig um þegar ákall barst um aðstoð.
Sverrir Helgason var ekki lengi að hugsa sig um þegar ákall barst um aðstoð.

Hvunndagshetjan Sverrir Helgason og hans föruneyti svöruðu ákalli sem komið var á framfæri á Twitter en koma þurfti einu utankjörfundaratkvæði frá Reykjavík til Reykjanesbæjar.

Sverrir var ekki lengi að hugsa sig um, þrátt fyrir að vera úti að borða með vinum sínum, og ákvað strax að hjálpa einstaklingi sem sá ekki fram á að koma atkvæðinu sínu til skila í tæka tíð. Þar sem talningamálið í Borgarnesi er enn í fersku minni vildi Sverrir ekki hætta á að einhver annar myndi taka verkefnið að sér sem ekki væri treystandi fyrir atkvæðinu.

Fréttastofa hitti Sverri og félaga á bensínstöð í Hafnarfirði.

„Maður náttúrulega vissi af þessum skandal í fyrra þannig að við vildum hafa einhvern almennilegan en ekki einhvern vitleysing að sjá um þetta. Við erum ekki í Borgarnesi og þið þurfið ekki að hafa neinar áhyggjur,“ sagði Sverrir og skellti upp úr.

Það mætti segja að Sverrir sé að fórna sér fyrir lýðræðið því hann sjálfur hefur ekki náð að greiða atkvæði.

„Ég hef ekki haft tíma til að kjósa, ég ætlaði að gera það áðan þannig að ég eiginlega get það ekki en ég treysti á að þessi hafi betri dómgreind heldur en ég, sem er reyndar mjög sennilegt sko.“

Sverrir segir að það sé mjög gott að geta glatt aðra. Stefnan er sett á Keflavík þar sem kosningagleði tekur við Sverri og hans félögum.

Fylgst er með nýjustu tíðindum um allt land í kosningavaktinni á Vísi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.