Tónlist

Covid-19 smit í portúgalska Eurovision hópnum

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
MARO á fyrstu æfingu sinni á stóra sviðinu í Tórínó.
MARO á fyrstu æfingu sinni á stóra sviðinu í Tórínó. EBU

Meðlimur í portúgalska Eurovision hópnum greindist með Covid-19 í skimun í PalaOlimpico tónleikahöllinni í Torino. 

Ekki kemur fram í tilkynningunni hvort einstaklingurinn sem greindist er hluti atriðinu á sviðinu eða hvort þetta er einhver í fylgdarhópnum. Portúgal keppir á fyrra undanúrslitakvöldi Eurovision þann 10. maí, líkt og Ísland. 

Samkvæmt tilkynningu frá skipuleggjendum Eurovision er einstaklingurinn ekki með nein einkenni. Reglum samkvæmt er einstaklingurinn kominn á hótelherbergi sitt í sjö daga einangrun. Þurfti viðkomandi líka að fara í PCR próf. Ekki liggur fyrir hvort smitaði einstaklingurinn verður laus úr einangrun þegar Portúgal keppir á þriðjudag.

Söngkonan MARO flytur lag Portúgal í keppninni í ár og er með nokkrar bakraddir á sviðinu. Reglurnar í keppninni eru þannig að allir aðrir meðlimir portúgalska hópsins í keppninni þurfa nú að bera grímur bæði innan og utan Eurovision hallarinnar. 

Portúgal mun ekki hætta við æfingu sína á sviðinu sem á að fara fram síðar í dag. 

Hér fyrir neðan má sjá framlag Portúgals til Eurovision ár, MARO með lagið Saudade Saudade.

Íslensku keppendurnir fengu ekki að keppa á stóra sviðinu í Eurovision í Rotterdam á síðasta ári vegna Covid smita innan hópsins. Þess í stað var upptaka frá æfingu Daða og Gagnamagnsins spiluð á lokakvöldinu. Það kom þó ekki að sök og endaði Ísland í fjórða sæti í lokakeppni Eurovision.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×