Tónlist

„Bjóddu táningsdraugunum þínum í heimsókn, hækkaðu í tækinu og láttu þá dansa“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Bestu vinirnir Julius og Silla voru að senda frá sér EP plötuna Relax, blabla
Bestu vinirnir Julius og Silla voru að senda frá sér EP plötuna Relax, blabla Julie Sjöfn Gasiglia

Hljómsveitin BSÍ var að senda frá sér tveggja laga EP plötu sem ber nafnið „Relax, blabla“. Meðlimir sveitarinnar, bestu vinirnir Sigurlaug Thorarensen og Julius Pollux, reyna að taka sjálf sig ekki of hátíðlega og eru óhrædd við að gera og vera alveg nákvæmlega eins og þeim sýnist.

Þau lýsa þessari nýju plötu sem uppörvandi hópmeðferðartíma þar sem fortíðardraugar og áföll mæta 157 töktum á mínútu af æstri leikgleði í laginu Jelly Belly og bláhærð minning dansar hægan vangadans á skólalóðinni við eitraðan hópþrýsting í laginu New Moon.

„Klæddu þinn versta kvíða í háa hæla, settu rauðan varalit á skammarlegar minningar, bjóddu táningsdraugunum þínum í heimsókn, hækkaðu í tækinu og láttu þau öll dansa hvert við annað,“ 

segja þau Silla og Julius.

Veggfóðurs útópía

Með laginu Jelly Belly fylgir fjörlegt tónlistarmyndband þar sem persónur þess, stórar sem smáar, eru í sífelldri og endurtekinni sjálfsmyndarleit þar sem þau rekast á, uppgötva og endurskapa sig sjálf í truflaðri veggfóðurs útópíu.

Ugla Hauksdóttir leikstýrði og klippti myndbandið við Jelly Belly, með aðstoð Markusar Englmair sem sá um kvikmyndatöku og litgreiningu, búningar og leikmynd voru í umsjá Berglindar Ernu Tryggvadóttur og Sigurlaugar Thorarensen og Anna Kolfinna Kuran er danshöfundur. Einnig kynnir myndbandið til leiks ungu leikarana Hildigunni Atladóttur og Guðmund Brynjar Bergsson.

„Fjörugur óður til bernskunnar“

„Tónlistarmyndbandið við Jelly Belly er fjörugur óður til bernskunnar sem fagnar tjáningarfrelsinu, minnir okkur á að taka okkur ekki of alvarlega og leyfir okkur að bara hafa gaman,“ segir leikstjórinn Ugla en hún hefur áður leikstýrt tónlistarmyndböndum fyrir sillus, Bang Gang, East of My Youth, Cell7 og Betu. Auk þess hefur hún leikstýrt þáttum af sjónvarpsseríunum Ófærð, Hanna, Snowfall og The Power.

Lagið Jelly Belly var tekið upp og mixað af Árna Hjörvari í The Vaccines. New Moon var tekið upp af Ægi Sindra Bjarnasyni og mixað af Francine Perry. Sarah Register sá um masteringu af báðum lögunum á Relax, blabla og plötuumslag er eftir Sigurlaugu Thorarensen.

Meðlimir BSÍ elska að spila á tónleikum og gefa út tónlist sína á eigin vegum, með hjálp frá vinum sínum hjá Why Not? Plötum, post-dreifingu og tomatenplatten í Berlín.

Það er margt spennandi framundan hjá sveitinni en þau munu meðal annars halda tvenna tónleika í maí, þann 19. maí á Sirkus og 21. maí á Kex.


Tengdar fréttir

Saga palestínskrar fjölskyldu á Íslandi sem býr við endalausa óvissu

Hljómsveitin BSÍ sendir frá nýtt myndband við lagið þeirra TAL 11. Leikstjóri myndbandsins er Erlendur Sveinsson en lagið er af fyrstu breiðskífunni BSÍ sem kom út í fyrra. Myndbandið lokar þar með hringnum í kringum útgáfu plötunnar þeirra „Stundum þunglynd ... en alltaf andfasísk“. Hér má sjá myndbandið:

Strand­­gestir í Vestur­bænum í stríði við einka­bílinn

Hljómsveitin BSÍ sem samanstendur af Juliusi Pollux Rothlaender og Sigurlaugu Thorarensen gefur í dag út sína fyrstu stóru plötu. Í rauninni eru þetta tvær plötur í einni, því hvor hlið plötunnar hefur að geyma sinn hljóðheim og standa þær báðar sem sér útgáfa, en saman endurspegla þær breytilegan hljóm dúósins.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.