Sport

Átján ára strákur nálgast heimsmet Usain Bolt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erriyon Knighton stóð sig vel á Ólympíuleikunum síðasta sumar og var hársbreidd frá því að komast á verðlaunapall þá aðeins sautján ára gamall.
Erriyon Knighton stóð sig vel á Ólympíuleikunum síðasta sumar og var hársbreidd frá því að komast á verðlaunapall þá aðeins sautján ára gamall. Getty/Christian Petersen

Erriyon Knighton er nafn sem fólk fer að heyra miklu meira af í framtíðinni en þetta er ekkert venjulegt spretthlauparaefni.

Knighton er átján ára Bandaríkjamaður, fæddur 2004, sem sérhæfir sig í 100 og 200 metra hlaupum. Það er í því síðarnefnda þar sem hann er þegar byrjaður að koma sér í í metabækurnar.

Knighton varð síðasta sumar yngsti frjálsíþróttamaður Bandaríkjamanna frá 1964 til að keppa á Ólympíuleikum. Það sumar sló hann heimsmet unglinga í 200 metra hlaupi sem var einmitt áður í eigu Usain Bolt.

Bolt hafði sautján ára gamall hlaupið á 19,93 sekúndum en í methlaupi sínu í fyrra þá kom Knighton í mark á 19,84 sekúndum.

Það er sú staðreynd sem hefur auðvitað kallað á samanburð við Bolt sem vann átta gull á Ólympíuleikum þar af 100 og 200 metra hlaupið á þremur leikum í röð frá 2008 til 2016.

Um helgina nálgaðist Knighton enn frekar heimsmet Usain Bolt í fullorðinsflokki. Hann gerði það með því að hlaupa 200 metrana á 19,49 sekúndum. Þetta er fjórði besti tími sögunnar og jafnframt hraðasti tími síðan á Ólympíuleikunum í London árið 2012. Þá var Knighton bara átta ára gamall þegar Bolt kom í mark á 19,32 sekúndum.

Heimsmet Usain Bolt er hlaup hans á heimsmeistaramótinu í Berlín 2009 sem var upp á 19,19 sekúndur. Aðeins Bolt (19,19 sekúndur), Yohan Blake (19,26) og Michael Johnson (19,32) hafa nú hlaupið hraðar í 200 metra hlaupi en Erriyon Knighton.

Knighton endaði fjórði á Ólympíuleikunum í fyrra en er líklegur til að vera fastagestur á verðlaunapallinum næsta áratuginn með sama áframhaldi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.