Sport

„Seinni hálfleikur með því slakasta sem ég hef séð“

Andri Már Eggertsson skrifar
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var afar ósáttur með liðið sitt eftir leik
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var afar ósáttur með liðið sitt eftir leik Vísir/Vilhelm

Afturelding tapaði fyrir Val 18-26. Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var afar svekktur með síðari hálfleik liðsins og fannst honum Afturelding einfaldlega brotna. 

„Fyrri hálfleikur var góður og vorum við klaufar að hafa ekki verið með jafna stöðu í hálfleik. Í seinni hálfleik brotnuðum við, sóknarleikurinn hrundi og menn hættu að sækja á markið og þá komu tæknifeilarnir og því miður fórum við bara í skel og þau fáu skot sem við skutum á markið varði Björgvin Páll,“ sagði Gunnar Magnússon og bætti við að Afturelding hafi brotnað undan mótlætinu.

Gunnar var afar svekktur með sóknarleikinn í seinni hálfleik þar sem Afturelding skoraði aðeins sex mörk á 28 mínútum.

„Vörn Vals var góð en að sama skapi vorum við staðir og hættum að sækja á markið. Við framkvæmdum seinni hálfleik afar illa og þegar menn missa kjarkinn þá koma þessir tæknifeilar.“

„Við vorum skelfilegir í seinni hálfleik og þetta var með því slakasta sem ég hef séð.“

Gunnari fannst ekkert óeðlilegt að Valur hafi unnið leikinn miðað við á hvaða stað liðin eru en hann gat ekki sætt sig við hvernig Afturelding tapaði leiknum.

„Frammistaðan í seinni hálfleik er áhyggjuefni fyrir mig og karakterinn í liðinu. Strákarnir vita að við erum fáliðaðir en það vantaði leiðtoga til að axla ábyrgð í þessum leik,“ sagði Gunnar Magnússon afar svekktur með seinni hálfleik Aftureldingar. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.