Sport

UFC-stjarna handtekin fyrir að ráðast á helsta andstæðing sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Colby Covington og Jorge Masvidal mættust í búrinu 5. mars og tóku svo upp þráðinn fyrir utan veitingastað í Miami á mánudaginn.
Colby Covington og Jorge Masvidal mættust í búrinu 5. mars og tóku svo upp þráðinn fyrir utan veitingastað í Miami á mánudaginn. getty/Chris Unger

Jorge Masvidal hefur verið handtekinn og kærður fyrir að ráðast á annan bardagakappa, Colby Covington, fyrir utan veitingastað í Miami.

Masvidal og Covington voru eitt sinn bestu vinir og æfingafélagar. En það slettist upp á vinskapinn fyrir þremur árum og síðan hafa þeir eldað grátt silfur saman.

Þeir mættust á UFC-bardagakvöldi í Las Vegas 5. mars þar sem Covington hafði sigur. Í viðtali eftir tapið sagði Masvidal að jafnvel þótt bardaganum væri lokið myndi hann ráðast á Covington ef þeir hittust á förnum vegi. Og hann stóð við það.

Masvidal réðist á Covington fyrir utan veitingastað í Miami á mánudaginn. Hann kýldi hann tvisvar, einu sinni á munninn og einu sinni í augað. Tönn brotnaði í Covington. Masvidal var svo handtekinn í gær.

Talið er að Masdival hafi verið ósáttur við að Covington tjáði sig um samband hans við börnin sín í aðdraganda bardaga þeirra fyrr í mánuðinum. Honum var ekki enn runnin reiðin og lét hnefana tala á mánudaginn.

Masvidal og Covington eru tveir af fremstu og vinsælustu bardagaköppum heims. Covington er efstur á styrkleikalista UFC í veltivigt og Masdival í 7. sætinu.

MMAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.