Innlent

Stjórnvöld hætta að niðurgreiða hraðpróf

Eiður Þór Árnason skrifar
Endurgjaldslaus hraðpróf og PCR verða áfram í boði hjá heilsugæslunni.
Endurgjaldslaus hraðpróf og PCR verða áfram í boði hjá heilsugæslunni. Vísir/Vilhelm

Reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna sýnatöku til greiningar á Covid-19 fellur úr gildi þann 1. apríl næstkomandi. Með tilkomu reglugerðarinnar gátu einkafyrirtæki boðið fólki upp á endurgjaldslaus hraðpróf.

Eftir að reglugerðin fellur úr gildi verður einkennasýnataka hjá heilsugæslu og heilbrigðisstofnunum áfram endurgjaldslaus, bæði hraðpróf og PCR. Sem fyrr þurfa einkennalausir þó að greiða sjö þúsund krónur fyrir PCR-próf til að fá vottorð vegna ferðalaga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Gert er ráð fyrir að einkaaðilar haldi áfram að bjóða upp á sýnatöku en að notendur verði rukkaðir fyrir þá þjónustu líkt og fyrir 16. september 2021 þegar reglugerðin tók fyrst gildi.

Ætla að auka áhersluna aftur á PCR-próf

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir í samtali við fréttastofu að til skoðunar sé að auka áhersluna á PCR-próf á Suðurlandsbraut og hraðprófin verði þá frekar á vegum einkaaðila.

„Núna erum við að gera hvoru tveggja og sóttvarnalæknir mælir til þess að við tökum fleiri PCR.“

Í dag fær fólk sem pantar sýnatöku á höfuðborgarsvæðinu í Heilsuveru sjálfkrafa strikamerki í hraðpróf á Suðurlandsbraut en því verður hugsanlega breytt í PCR eftir næstu helgi.

„Greiningagetan er orðin það góð núna hjá Landspítalanum og þeir treysta sér alveg í mun fleiri sýni. Þetta eru betri próf og það er til nóg af hvarfefnum hjá spítalanum svo það fellur allt með því að nota PCR-prófin meira núna,“ segir Ragnheiður.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Ríkis­sjóður greitt 1,3 milljarða fyrir hrað­próf

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa greitt rúmar 950 milljónir króna til einkaaðila vegna hraðprófa. Að sögn SÍ er líklegt að þessi tala eigi eftir að hækka þar sem reikningar fyrir þessa þjónustu berist stofnuninni með óreglulegum hætti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×