Íslenski boltinn

Löðuðu reyndan Ástrala í Laugardalinn

Sindri Sverrisson skrifar
Gema Simon hefur spilað ellefu A-landsleiki fyrir Ástralíu.
Gema Simon hefur spilað ellefu A-landsleiki fyrir Ástralíu. Getty/Mark Kolbe

Þróttur Reykjavík, sem vann brons á Íslandsmótinu og silfur í bikarkeppninni á síðasta ári, hefur fengið fyrrverandi landsliðskonu Ástralíu í sínar raðir. Sú heitir Gema Simon og er varnarmaður.

Simon er 31 árs gömul og býr yfir mikilli reynslu. Hún kemur í Laugardalinn frá Newcastle Jets í Ástralíu þar sem hún hefur spilað stærstan hluta síns ferils.

Simon hefur þó áður spilað á Norðurlöndum því hún lék með Avaldsnes í Noregi árið 2017.

Hún á að baki 11 A-landsleiki fyrir Ástralíu og var í 23 manna leikmannahópi liðsins á heimsmeistaramótinu í Frakklandi árið 2019.

„Við erum mjög ánægðir með það Þróttarar, að geta laðað þennan leikmann til landsins enda er Gema sterkur varnarmaður með alþjóðlega reynslu. Við trúum því að hún eigi eftir að láta mikið að sér kveða á Íslandi í sumar,“ segir Kristján Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar, í fréttatilkynningu.

„Við viljum bæta okkur ár frá ári og teljum að Gema geti skipt máli þar, auk þess sem hún muni með reynslu sinni hafa mjög góð áhrif á ungan leikmannahóp, jafnt innan sem utan vallar,“ segir Kristján.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.