Innlent

Segir alla tapa á nýju skipu­lagi Út­lendinga­stofnunar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Guðríður Lára Þrastardóttir, lögfræðingur hjá Rauða krossinum, segir að nýtt skipulag talsmannaþjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, muni leiða til minni gæða, aukins kostnaðar, verri þjónustu og lengri málsmeðferðar.
Guðríður Lára Þrastardóttir, lögfræðingur hjá Rauða krossinum, segir að nýtt skipulag talsmannaþjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, muni leiða til minni gæða, aukins kostnaðar, verri þjónustu og lengri málsmeðferðar. Vísir/Ernir

Lögfræðingur hjá Rauða krossinum gagnrýnir harðlega nýtt skipulag Útlendingastofnunar og dómsmálaráðuneytisins um talsmannaþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Hún segir alla tapa á nýju skipulagi.

Í færslu sem Guðríður Lára Þrastardóttir, lögfræðingur hjá Rauða krossinum, birtir á Facebook tjáir hún sig um auglýsingu um nýtt skipulag á talsmannaþjónustunni. Auglýsingin var birt á vef Útlendingastofnunar í gær.

Guðríður Lára, sem er teymisstjóri teymis Rauða krossins um málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd, segir að skipulagið sem kynnt var í gær sé í raun nákvæmlega sama skipulag og var við lýði áður en Rauði krossinn tók við málefninu árið 2014. Segir hún að það skipulag hafi ekki þótt gott.

Hún segir að tímagjaldið hafi hækkað um 1000 krónur frá 2014 og sé enn það lægsta sem ríkið greiði fyrir vinnu lögfræðinga.

„Þarna er líka hámark á tímafjölda sem ekki er í nokkrum takti við raunveruleikann en ekki var leitað til RKÍ, sem hefur sinnt þessu í bráðum sjö ár, þegar umræddur tímafjöldi var reiknaður út,“ skrifar Guðríður Lára.

Þá segir hún að ekki virðist sem svo að gert sé ráð fyrir greiðslu á útlögðum kostnaði vegna túlkaþjónustu.

„Þetta afhjúpar viðhorf þeirra sem ráða til verkefnisins og fólksins sem á allt sitt undir hér. Þessi tímamót eru dapurleg. Þetta skipulag mun að mínu mati leiða til minni gæða, stóraukins kostnaðar, verri þjónustu og lengri málsmeðferðar. Það tapa allir á þessu.“

Í febrúar kom fram að öllum lögfræðingum Rauða krossins hafi verið sagt upp störfum þar sem ekki væri búið að framlengja samning við dómsmálaráðuneytið. Þá sagði Guðríður Lára að það stæði til að Rauði krossinn tæki þátt í hugsanlegu útboði en það ylti á skilmálum útboðsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.