Sport

Sektaður um fimm milljónir fyrir að ráðast á stól dómarans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Zverev lætur hér höggin dynja á stól dómarans.
Alexander Zverev lætur hér höggin dynja á stól dómarans. AP/Marcos Dominguez

Tennisspilarinn Alexander Zverev var rekinn út úr Opna mexíkóska tennismótinu í vikunni eftir að hafa misst algjörlega stjórn á skapi sínu. Sú hegðun verður honum dýr.

Þessi 24 ára Þjóðverji er í þriðja sæti heimslistans en var þarna að spila í tvíliðaleik með Marcelo Melo en þeir töpuðu fyrir Lloyd Glasspool og Harri Heliovaara.

Zverev var svo ósáttur með dómara leiksins að hann sló ítrekað spaða sínum í dómarastólinn auk þess að lesa dómaranum pistilinn.

Zverev hafði seinna beðist innilega afsökunar á framkomu sinni en hann nældi sér þarna í hámarkssekt.

Zverev þarf að borga fjörutíu þúsund dollara í sekt eða meira en fimm milljónir íslenskra króna.

Hann missir líka af þrjátíu þúsund dollurum í verðlaunafé.

Alþjóðatennissambandið hefur samt enn ekki lokað málinu og því gæti Zverev ætt von á frekari refsingum í framtíðinni. Hann gæti fengið bann.

Zverev var rekinn úr mótinu og fékk því ekki að keppa í einstaklingskeppninni þar sem hann hafði titil að verja. Þetta gæti líka haft slæm áhrif á stöðu hans á heimslistanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×