Sport

Hent úr landsliðinu en vann sem lögga með æfingunum og vann tvö gull á ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Johannes Strolz með gull og silfur sem hann vann í einstaklingsgreinum á leikunum en hann bætti síðan einu gulli við í liðakeppni.
Johannes Strolz með gull og silfur sem hann vann í einstaklingsgreinum á leikunum en hann bætti síðan einu gulli við í liðakeppni. Ap/Luca Bruno

Johannes Strolz kom sér og pabba sínum í sögubækurnar á Vetrarólympíuleikunum í Peking en hann vann alls tvenn gullverðlaun og ein silfurverðlaun á leikunum.

Um leið og hann vann fyrra gullið sitt, í tvíkeppninni, þá sá hann til þess að hann og faðir hans Hubert Strolz, urðu þeir fyrstu til vinna gull í sömu grein í alpagreinum á leikunum.

Það hefur hins vegar mikið gengið á hjá Strolz á leið hans að þessu afreki sínu.

Árið 2020 var ekki gott fyrir hann sem endaði með því að honum var kastað út úr austurríska skíðalandsliðinu. Það þýddi að hann þurfti að leita sér að vinnu og fékk á endanum vinnu sem lögreglumaður.

Hann gaf þó ekki Ólympíudraumana upp á bátinn og æfði með vinnunni. Hann þurfti að fjármagna allt, ferðalögin, búnaðinn og fjarvistir frá vinnu.

„Eftir tólf tíma vinnudag í löggunni þá var komið að æfingu. Þetta var mjög lýjandi en ég var til í að gera allt til að halda draumnum á lífi,“ sagði Johannes Strolz við NRK.

Strolz var einn af þeim síðustu til að tryggja sig inn á Ólympíuleikana. Honum tókst það með því að vinna mót í janúar, hans fyrsta á ferlinum. Stigin dugðu honum til að komast á leikana.

„Þegar ég hugsa um allar myndirnar af pabba með ÓLympíugullið þá er erfitt fyrir mig að gráta ekki. Þarna er draumur að rætast,“ sagði Strolz við heimasíðu Alþjóðaólympíunefndarinnar.

„Ég held að ég sé góð dæmisaga um að gefast aldrei upp. Þú þarft að trúa á sjálfan þig, taka áhættuna og halda alltaf áfram,“ sagði Strolz.

Hann er nú í viðræðum við austurrísku landsliðsnefndina um að fá meiri peningastyrk frá henni sem þýddi þá færri vaktir í lögreglunni á næstu misserum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×