Henry Cavill er í aðalhlutverki Witcher en þættirnir eru byggðir á bókum eftir pólska rithöfundinn Andrzej Sapkowski. Þeir byggja einnig á gífurlega vinsælum tölvuleikjum sem gerðir voru eftir bókunum. Í söguheimi þáttanna átti sér stað atburður sem blandaði saman íbúum margra vídda og við það strönduðu allskonar skrímsli, menn, dvergar, álfar og alls kyns verur saman í einum heimi með tilheyrandi deilum og átökum.
Witcher er nafn sérstakra stríðsmanna sem voru skapaðir til að fella ill skrímsli.
Þessir stríðsmenn eiga sér kastala sem kallast Kaer Morhen en starfsmenn RVX komu að því að skapa það virki og umhverfi þess, eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan.
RVX er tækni-og myndbrellustúdíó sem var stofnað árið 2008. Það hefur komið að kvikmyndum eins og Adrift, Everest, Gravity, Sherlock Holmes, Tinker Tailor Soldier Spy og mörgum öðrum. Yfirlit má sjá hér á vef RVX.