Sport

Sakar hina örmagna Karlsson um að vera dramadrottningu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Frida Karlsson var gjörsamlega úrvinda þegar hún kom í mark í tíu kílómetra skíðagöngu á Vetrarólympíuleikunum í Peking.
Frida Karlsson var gjörsamlega úrvinda þegar hún kom í mark í tíu kílómetra skíðagöngu á Vetrarólympíuleikunum í Peking. getty/Patrick Smith

Norska skíðakonan Kari Øyre Slind sakar hina sænsku Fridu Karlsson um að vera dramadrottningu og hanna atburðarrás til að dreifa athyglinni frá slæmum árangri sínum.

Miklar væntingar voru gerðar til Karlsson á Vetrarólympíuleikunum í Peking enda ein fremsta skíðakona heims. Hún hefur hins vegar ekki staðið undir væntingunum og komst ekki á verðlaunapall í fimmtán kílómetra skiptigöngu og tíu kílómetra skíðagöngu með hefðbundinni aðferð.

Það sem meira var kom Karlsson algjörlega örmagna í mark í báðum greinunum. Það leið yfir hana eftir skiptigönguna og hún féll í snjóinn eftir skíðagönguna.

Slind gaf lítið fyrir þreytu Karlssons og sakaði hana um að búa til leikþátt. „Þegar hlutirnir ganga ekki vel er mikilvægt að búa til dramatík til að hafa einhverju til að kenna um. Hún er dramadrottning,“ sagði Slind við VG.

Hún dró svo aðeins í land og sagði að það væri hálf kjánalegt fyrir sig að gagnrýna Karlsson þegar hún sjálf komst ekki einu sinni á Vetrarólympíuleikana. Þá sagðist Slind finna til með Karlsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×