Bíó og sjónvarp

Svörtu sandar valdir til frumsýningar á Berlinale kvikmyndahátíðinni

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Svörtu sandar eru nýir þættir frá Baldvini Z.
Svörtu sandar eru nýir þættir frá Baldvini Z. Skjáskot

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin BERLINALE hefur valið sjónvarpsþættina Svörtu sanda sem eitt af sjö verkefnum til frumsýninga utan heimalands, fyrst íslenskra þáttasería. Þættirnir eru í sýningu á Stöð 2.

Hátíðin verður haldin í febrúar næstkomandi en nærri 200 verkefni alls staðar að úr heiminum sækja um á ári hverju. BERLINALE er ein stærsta kvikmyndahátíð í heiminum sem dregur að yfir hálfa milljón manns, þar með talið kvikmyndagerðarfólk og annað fólk í faginu frá yfir 130 löndum. 

Í umsögn dómnefndar um Svörtu sanda er seríunni hrósað sérstaklega fyrir dýpt í karaktermótun, óvenjulegan snúning á hina hefðbundnu leit að sökudólg í glæpaseríum með því að leyfa persónulegu lífi og áskorunum karakteranna að vega þyngra en málið sjálft sem þau rannsaka. 

„Þar að auki geri áferð seríunnar, myndatakan og hið fallega umhverfi suðurstrandar Íslands, verkefnið sannarlega einstakt að mati nefndarinnar,“ segir í tilkynningu. 

Raunverulegar og óþægilegar tilfinningar

Nú þegar hafa Svörtu sandar verið seld til Kína, Ástralíu, Belgíu, Finnlands, Hollands og Indlands auk þess sem frekari fregna af sölum er að vænta á komandi vikum sem gerir að verkum að þættirnir verða aðgengilegir í meira og minna öllum heiminum.

 „Þetta er gríðarlegur heiður fyrir okkur öll sem stöndum að seríunni. Umsögn dómnefndarinnar hittir okkur beint í hjartastað og virðist skilja fullkomlega okkar sýn á verkefnið. Ég hef alltaf viljað gera sjónvarp sem er áskorun fyrir áhorfendur að horfa á og meðtaka, vinna með raunverulegar tilfinningar, jafnvel óþægilegar og er ótrúlega hreykinn af þessari viðurkenningu sem sköpunarverk okkar í Glassriver og sérstaklega meðhöfunda minna, Aldísar Amah Hamilton og Ragnars Jónssonar, fær með þessu vali,“ segir Baldvin Z, leikstjóri Svörtu sanda, einn höfunda og eigenda Glassriver. 

„Við hjá Glassriver erum mjög stolt af þessu afreki Svörtu sanda. Að framleiðslu á svona seríu koma hundruðir einstaklinga, þar sem er hvert og eitt er ómissandi og í þessu verkefni er ljóst að öll hafa skilað sínu og gott betur en það. Við erum sérstaklega þakklát Stöð 2 fyrir að hafa haft trú á verkefninu og auðvitað öllum erlendum meðframleiðendum og samstarfsaðilum sem gerðu okkur það kleift að láta það verða að veruleika, að ógleymdri auðvitað Kvikmyndamiðstöð Íslands og ráðuneytinu fyrir þeirra stuðning og hvatningu,” segir Arnbjörg Hafliðadóttir framleiðandi og einn eigenda Glassriver. 

Í fyrsta sinn á Berlinale

Þetta verður í fyrsta skipti sem Baldvin Z fer með verk á BERLINALE en hann hefur átt góðu gengi að fagna á Locarno í Sviss, Busan í SuðurKóreu, Toronto í Kanada með fyrri verk sín, Lof mér að falla og Vonarstræti sem er enn mest verðlaunaða verkefni sögunnar á Edduverðlaununum. 

Þættirnir Svörtu sandar er framleidd af þeim Arnbjörgu Hafliðadóttur, Andra Ómarssyni og Herði Rúnarssyni hjá framleiðslufyrirtækinu Glassriver. Aldís Amah Hamilton, Ævar Þór Benediktsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Þór Tulinius og Kolbeinn Arnbjörnsson fara með aðalhlutverk seríunnar, sem sköpuð er eftir hugmynd höfundarins Ragnars Jónssonar, ásamt Aldísi, Baldvin Z og Andra Óttarssyni. 

Svörtu sanda má nálgast á Stöð 2+ og að auki er aðgengilegt podcastið Sandkorn sem fjallar um þættina hér á Vísi, þar sem Baldvin Z fer ofan í öll litlu smáatriðin sem eru partur af seríunni en ekki allir áhorfendur muni endilega taka sérstaklega eftir.

Hér fyrir neðan má hlusta á nýjasta þáttinn af Sandkorn.


Tengdar fréttir

Saumaði út „éttu skít“ meðan hún ræddi við dóttur sína

Fjórði þátturinn af Svörtu söndum, í leikstjórn Baldvin Z, fór í loftið á Stöð 2 á sunnudagskvöldið en þættirnir fjalla um Anítu, þrítuga lögreglukonu, sem neyðist aftur á æskuslóðirnar sem hún flúði fyrir 14 árum.

Rasshitamælirinn raunsönn lýsing á líkfundi

Á jóladag var frumsýndur á Stöð 2 fyrsti þátturinn af Svörtu söndum, í leikstjórn Baldvin Z en þættirnir eru framleiddir af Glassriver. Áhorfendur Stöðvar 2 fengu einn þátt á jóladag og síðan aftur þátt á öðrum degi jóla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×