Fótbolti

Correa skoraði tvö í sigri Atletico Madrid

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Angel Correa í leiknum í dag.
Angel Correa í leiknum í dag. EPA-EFE/Fernando Alvarado

Argentínumaðurinn Angel Correa var hetja Atletico Madrid í spænsku úrvalsdeildinni í dag en hann skoraði bæði mörk liðsins í 2-0 sigri á Rayo Vallecano. Sigurinn lyfti Atletico mönnum upp í fjórða sæti deildarinnar.

Fyrir leikinn sátu liðin í fjórða og fimmta sæti deildarinnar, Rayo Vallecano í fjórða sætinu með 30 stig en Atletico Madrid í því fimmta með 29 stig. Það var því til mikils að vinna fyrir bæði liðin sem eru í harðri baráttu um að tryggja sér meistaradeildarsæti.

Leikurinn byrjaði á hefðbundnum nótum þegar að Diego Simeone þjálfari Atletico Madrid fékk gult spjald fyrir kjaftbrúk á 7. mínútu. En heimamenn voru þó sterkari og áttu hættulegri færi. Það var svo á 28. mínútu sem ísinn var brotinn. Yannick Carrasco átti þá skemmtilegan sprett og síðan fyrirgjöf sem hafnaði í varnarmanni. En Rayo tókst ekki að hreinsa boltann og Angel Correa var fyrstu að átta sig og kom boltanum í netið. 1-0 í hálfleik.

Madrídingar juku forskot sitt svo strax á 53. mínútu. Þar var aftur á ferðinni Correa. Eftir snarpa sókn heimamanna þá átti Renan Lodi fyrirgjöf frá vinstri sem Correa átti í engum vandræðum með að koma í netið. 2-0 og það urðu úrslit leiksins. Liðin höfðu því sætaskipti og er Atletico því í fjórða sætinu með 32 stig en Rayo Vallecano er með 30 stig í fimmta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×