Menning

Bók seðla­banka­stjóra upp­seld hjá út­gefanda

Jakob Bjarnar skrifar
Ásakanir um ritstuld eru Ásgeiri Jónssyni til nokkurs ama en hann getur huggað sig við að deilan hefur ekki haft neikvæð áhrif á bóksöluna, hún er ofar vonum.
Ásakanir um ritstuld eru Ásgeiri Jónssyni til nokkurs ama en hann getur huggað sig við að deilan hefur ekki haft neikvæð áhrif á bóksöluna, hún er ofar vonum. vísir/vilhelm

Jónas Sigurgeirsson forleggjari hjá Almenna bókafélaginu er ánægður með ganginn í sölu á bók Dr. Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra, Eyjunni hans Ingólfs.

Hann segist nú sjá fram á að 1. prentun bókarinnar sé við að verða uppseld hjá útgefanda. Og að önnur prentun bókarinnar er væntanleg strax eftir helgi. Það er haft til marks um að bækur hafi náð markmiðum útgefanda, einskonar þumalputtaregla um að útgáfan sé vel heppnuð að teknu tilliti til markaðar. „Uppseld hjá útgefanda“ segir í sjálfu sér ekki mikið en gefur glögglega til kynna eftirspurn þó ekki sé hægt að fullyrða um smásöluna út frá þeirri stöðu.

„Ég er mjög ánægður með ganginn í þessu,“ segir Jónas í samtali við Vísi.

Bókin hefur reyndar ekki ratað á lista yfir mest seldu fræðibækurnar eins og glöggir lesendur Vísis ráku augu í þegar birtur var bóksölulisti yfir söluna 7. til 13. desember. En sá listi tekur aðeins til þeirra tíu söluhæstu.

Bækurnar sem hafa stolið senunni í þessu jólabókaflóði.

Eyjan hans Ingólfs komst í sviðsljósið eftir að Dr. Bergsveinn Birgisson, rithöfundur og fræðimaður, taldi sig greina í henni efni sem hann ætlar að hafi verið tekið úr bók hans Leitinni að svarta víkingnum án þess að geta heimilda. Þessu hafnar Ásgeir. Málið hefur vakið mikla athygli, er seðlabankastjóra til nokkurs ama.

Í athugasemd sem hann skrifar á Facebook-vegg sinn, þar sem hann gerir athugasemd við að eitt atriði sem Bergsveinn týnir til máli sínu til stuðnings í greinargerð standist ekki, segir hann þetta heldur leiðigjarnt. En, „ef þetta verður allt til þess að fleiri lesi bók mína – þá er ekki allt til ónýtis.“ Og hann getur nú huggað sig við að deilan virðist ætla að auka áhuga á bókinni.

Siðanefnd Háskóla Íslands hefur tekið málið til umfjöllunar en Ásgeir vinnur nú að greinargerð þar sem hann hyggst svara ásökunum Bergsveins.

Hér ofar má sjá umrædda athugasemd Ásgeirs. Bergsveinn hefur fyrir sína parta gengist fúslega við því að ábending Ásgeirs hvað varðar þetta tiltekna atriði sé réttmæt: „Þessa yfirsjón játa ég fúslega, en hún er þó smáatriði í hinu stóra samhengi.“


Tengdar fréttir

„Ég hef aldrei áður verið vændur um stuld“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur brugðist við fréttaflutningi af meintum hugverkastuldi og ásökunum Bergsveins Birgissonar, segist hafa lesið Leitina að svarta víkingnum en hún sé ekki hefðbundin sagnfræði.

Sakar seðla­banka­stjóra um rit­stuld

Bergsveinn Birgisson, rithöfundur og fræðimaður, telur engan vafa á leika að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, hafi í veigamiklum atriðum stuðst við bók hans Leitina að svarta víkingnum í bók sinni Eyjan hans Ingólfs. Án þess að geta heimilda. Það heitir rit- og hugmyndastuldur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×