Fótbolti

Þjálfari fékk hjartaáfall og lést þegar hann fagnaði sigurmarki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sjúkrabíll á fótboltaleik en þessi fótboltaleikur tengist þó ekki atvikinu í Egyptalandi.
Sjúkrabíll á fótboltaleik en þessi fótboltaleikur tengist þó ekki atvikinu í Egyptalandi. Getty/Mehmet Akif Parlak

Adham El-Selhadar, þjálfari egypska knattspyrnufélagsins El-Magd SC, kvaddi þennan heim óvænt og sorglega eftir að hafa fengið hjartaáfall í miðjum leik.

Kringumstæður andlátsins voru mjög sérstakar enda karlinn að upplifa gleðistund þegar áfallið kom.

Það var mikil dramatík á lokasekúndum leiks liðsins hans á dögunum og spennan var oft mikil fyrir hinn 53 ára gamla El-Selhadar.

Hann fékk hjartaáfall þegar lið hans skoraði sigurmarkið í uppbótartíma leiksins. Markið kom á 92. mínútu.

Fljótlega áttuðu menn sig á því að ekki var allt með felldu og var kallað á sjúkrabíl sem kom inn á völlinn. Hann flutti þjálfarann á sjúkrahús en það tókst hins vegar ekki að bjarga lífi hans.

El-Selhadar var að þjálfa þetta b-deildarlið núna en hann á sér sigursæla sögu í egypskum fótbolta sem leikmaður og hafði bæði unnið deild og bikar með liði Ismaily.

El Magd liðið er í sjöunda sæti í deildinni og hefur náð í fjórtán stig úr níu leikjum.

Hér fyrir neðan má sjá markið og fögnuðinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.