Sport

Yngsta íslenska konan til að fara upp með hundrað kíló

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úlfhildur Arna Unnarsdóttir verður ekki sautján ára fyrr um mitt næsta ar en hún er þegar farin að lyfta hundrað kílóum í jafnhendingu.
Úlfhildur Arna Unnarsdóttir verður ekki sautján ára fyrr um mitt næsta ar en hún er þegar farin að lyfta hundrað kílóum í jafnhendingu. Instagram/@ulfhildurarna

Úlfhildur Arna Unnarsdóttir setti bæði íslensk og sænsk met þegar hún varð sænskur unglingameistari í ólympískum lyftingum um helgina.

Úlfhildur Arna setti ekki aðeins Íslandsmet á mótinu heldur varð hún yngsta íslenska konan til að lyfta hundrað kílóum í jafnhendingu.

Úlfhildur Arna er aðeins sextán ára gömul síðan í júní en hún hefur aðsetur í Gautaborg. Móðir hennar er Helga Hlín Hákonardóttir, hæstaréttarlögmaður, sem varð Evrópumeistari í -59 kg flokki á Evrópumeistaramóti öldunga í fyrra.

Það er ljóst að eplið fellur ekki langt frá eikinni hjá þeim mæðgum. Úlfhildur Arna var farin að bæta metin í fyrra og heldur áfram að bæta sig hratt.

Unglingameistaramót Svíþjóðar í ólympískum lyftingum var kjörinn vettvangur fyrir hina ungu Úlfhildi til að sýna sig enn og sanna.

Úlfhildur lyfti mest 85 kílóum í snörun og 100 kílóum í jafnhendingu. Hún var því með 185 kíló í samanlögðu. Þetta voru allt ný íslensk met en þá var snörunin og samanlagða þyngdin líka sænskt met.

Þetta hefur verið magnaður vetur fyrir Úlfhildi því hún varð bæði Norðurlandameistari og íslenskum meistari á dögunum og þá náði hún einnig níunda sæti á heimsmeistaramóti ungmenna sautján ára og yngri.

Á öllum þessum mótum hefur Úlfhildur verið að bæta sig.

Á heimsmeistaramótinu setti hún Íslandsmet í snörun með því að lyfta 81 kílóum og var þá aðeins einu kílói frá metinu í jafnhendingu sem þá var 97 kíló. Þetta var hins vegar Íslandsmet í samanlögðu.

Á Íslandsmeistaramótinu í ólympískum lyftingum setti hún Íslandsmet í öllum þremur hlutunum, lyfti 82 kílóum í snörun, 98 kílóum í jafnhendingu og 180 kílóum í samanlögðu.

Á Norðurlandamótinu á dögunum þá setti hún Íslandsmet í snörun með því að lyfta 83 kílóum og jafnaði met sitt í jafnhendingu með því að lyfta 98 kílóum.

Hún kórónaði síðan magnaða frammistöðu sína á síðustu misserum með því að setja öll þessi met um helgina.

Frá því á heimsmeistaramótinu í október hefur hún því bætt sig um fimm kíló í snörun og um átta kíló í jafnhendingu. Það þýðir jafnframt bætinu upp á þrettán kíló í samanlögðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×