Sport

„Stemmningin í blandaða liðinu hefur alltaf verið frábær“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sóley Jóhannesdóttir (þriðja í röðinni) er á sínu fyrsta Evrópumóti.
Sóley Jóhannesdóttir (þriðja í röðinni) er á sínu fyrsta Evrópumóti. stefán pálsson

Blandað lið Íslands í unglingaflokki keppir til úrslita á EM í hópfimleikum í kvöld. Eftir flotta frammistöðu í undanúrslitunum er hugur í íslenska liðinu.

Ísland varð í 3. sæti í undanúrslitunum með 47.475 í heildareinkunn. Bretland varð efst og Svíþjóð í 2. sæti.

„Þetta er bara gleði. Það var rosaleg orka í liðinu, léttir og frábær tilfinning,“ sagði Sóley við Vísi eftir undanúrslitin.

„Við ætluðum ekkert að spá rosa mikið í einkunnunum núna en betur í úrslitunum,“ bætti hún við.

Sóley með uppréttar hendur í gólfæfingunum.stefán pálsson

Íslenska liðið náði sér sérstaklega vel á strik á trampólíninu. Liðsmenn lentu stökkunum sínum með glans og voru duglegir að hvetja samherjana áfram. Sóley segir að andinn í íslenska liðinu sé engu líkur. 

„Stemmningin í blandaða liðinu hefur alltaf verið frábær. Það er ótrúlega mikil samheldni í liðinu, jákvæðni, við erum ótrúlega lausnamiðuð og við kláruðum þetta eins og við ætluðum að klára þetta,“ sagði Sóley.

Keppni í úrslitum í blönduðum liðum hefst klukkan 18:30 í kvöld. Hægt verður að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×