Sport

Strákur sem var skotinn til bana í skólanum í Michigan var íþróttastjarna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tate Myre heimsótti Toledo háskólann á dögunum þar sem hann var að skoða aðstæður sem möguleika á að spila með skólaliðinu.
Tate Myre heimsótti Toledo háskólann á dögunum þar sem hann var að skoða aðstæður sem möguleika á að spila með skólaliðinu. Twitter/@TateMyre2023

Íþróttahetja í Oxford menntaskólanum reyndi að ná vopninu af byssumanninum en endaði á því að verða einn af fórnarlömbum árásarinnar á þriðjudaginn.

Tate Myre lést af skotsárum sínum í lögreglubílnum á leið á sjúkrahús. Myre var einn af fjórum nemendum sem voru myrtir af fimmtán ára byssumanni í Oxford High School í Michigan fylki í Bandaríkjunum. Sjö aðrir særðust.

Byssumaðurinn er fimmtán ára drengur og hann hefur verið ákærður fyrir hryðjuverk, morð, morðtilraunir, vopnalagabrot og fleira. Réttað verður yfir honum sem fullorðnum manni. Skólinn er nærri Detroit borg í Bandaríkjunum.

Myre þótti sýna mikið hugrekki við að reyna að ná byssunni af skólafélaga sínum en fórnaði með því lífi sínu.

Myre var vel þekktur innan skólans og víðar enda stjörnuleikmaður í fótboltaliði skóla síns.

Fyrir innan við mánuði síðan skoraði Myre snertimark fyrir skólann sinn í leik í úrslitakeppni menntaskóla Michigan fylkis.

Hinn sextán ára gamli Myre fékk verðlaun frá þjálfarasambandi menntaskólanna í Michigan fylki í febrúar síðastliðnum.

Tate Myre spilaði sem hlaupari eða innherji með fótboltaliði skólans og ætlaði sér að komast á íþróttaskólastyrk í háskóla. Hann var líka frábær nemandi.

Yfir þrjátíu þúsund manns höfðu skrifað undir beiðni um að endurnefna leikvang skólans eftir Myre en hann heitir nú Wildcat Stadium.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×