Í Svíþjóð er það þannig að meirihluti þingmanna þarf að umbera forsætisráðherrann, það er ekki greiða atkvæði gegn. Í atkvæðagreiðslu sem lauk nú skömmu fyrir klukkan 13 að íslenskum tíma greiddu 175 þingmenn Jafnaðarmanna, Græningja, Vinstriflokksins og Miðflokksins ýmist atkvæði með Andersson eða sátu hjá (101 greiddi atkvæði með og 74 sátu hjá). 173 þingmenn Moderaterna, Kristilegra demókrata, Svíþjóðardemókrata og Frjálslyndra greiddu atkvæði gegn tillögunni.
Andersson, sem verður 34. forsætisráðherra Svíþjóðar og fyrsta konan til að gegna embættinu, hefur verið fjármálaráðherra landsins frá árinu 2014. Hún tók við embætti formanns Jafnaðarmannaflokksins fyrr í mánuðinum af Stefan Löfven.
Andersson sagði af sér á miðvikudaginn, sjö tímum eftir að meirihluti þingsins hafði samþykkt hana sem nýjan forsætisráðherra, eftir að Græningjar tilkynntu að þeir myndu segja skilið við ríkisstjórn landsins eftir að fjárlagafrumvarp borgaralegu flokkanna á þingi, stjórnarandstöðuflokkanna, náði fram að ganga á þinginu. Sögðust leiðtogar Græningjar ekki vilja stýra landinu með fjárlögum sem hægriöfgaflokkur, það er Svíþjóðardemókratar, hafi komið að því að smíða.
Jafnaðarmenn og Græningjar hafa myndað saman minnihlutastjórn í Svíþjóð frá árinu 2014, en Andersson mun nú leiða minnihlutastjórn Jafnaðarmanna, en þingkosningar fara fram í landinu í september næstkomandi. Má ljóst vera að stjórnin verður ein sú veikasta í sögu landsins, enda háð því að þrír þingflokkar verji hana vanstrausti, auk þess að stjórnun mun þurfa að stýra landinu á fjárlögum stjórnarandstöðunnar.
Þar sem Andersson hefur nú tekið við embætti forsætisráðherra Svíþjóðar gegna fjórar konur nú embætti forsætisráðherra á Norðurlöndum – Andersson í Svíþjóð, Katrín Jakobsdóttir á Íslandi, Mette Frederiksen í Danmörku og Sanna Marin í Finnlandi. Jonas Gahr Støre tók við embætti forsætisráðherra í Noregi af Ernu Solberg í síðasta mánuði.