Erlent

Japanir loka landa­mærum sínum og heil­brigðis­ráð­herrar G7 funda

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Japanir hafa bæst í hóp þeirra þjóða sem hafa gripið til þess ráðs að loka landamærum sínum eða takmarka komur vegna Ómíkrón.
Japanir hafa bæst í hóp þeirra þjóða sem hafa gripið til þess ráðs að loka landamærum sínum eða takmarka komur vegna Ómíkrón. AP/Hiro Komae

Heilbrigðisráðherrar G7-ríkjanna munu funda í dag um Ómíkrón-afbrigði kórónuveirunnar, sem hefur nú fundist í nokkrum löndum. Japanir hafa bæst í hóp þeirra þjóða sem hafa ákveðið að loka landamærum sínum vegna afbrigðisins.

Fumio Kishida, forsætisráðherra Japan, sagði að frá og með morgundeginum yrði erlendum ferðamönnum bannað að koma til landsins. Þá myndu Japanir hefja örvunarbólusetningar í næsta mánuði, fyrst hjá eldra fólki og heilbrigðisstarfsmönnum.

Um 76 prósent Japana eru fullbólusettir.

Stjórnvöld í Ísrael hafa einnig lokað landamærum sínum og þá hefur verið gripið til ferðatakmarkana í Bandaríkjunum, Bretlandi, Brasilíu og Kanada, þar sem aðgerðirnar beinast gegn ferðalöngum frá suðurhluta Afríku. 

Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, þar sem afbrigðið fannst fyrst, hefur gagnrýnt viðbrögð ofangreindra ríkja og hvatt þau til að aflétta ferðatakmörkunum áður en að meiri skaði hlýst af. 

Stjórnvöld í Suður-Afríku, auk fjölda sérfræðinga, hafa varað við því að Suðurafríkumönnum sé refsað fyrir að gera hið rétta, það er að segja greina frá nýju afbrigði, og segja slíkar aðgerðir geta fælt ríki frá því að deila mikilvægum uppýsingum.

Matshidiso Moeti, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Afríku, sagði aðgerðirnar aðför að samstöðu heimsbyggðarinnar, ekki síst nú þegar afbrigðið hefði greinst víða um heim.

Afbrigðið hefur fundist í um tólf löndum í Afríku, Asíu, Evrópu og Norður-Ameríku.

Sérfræðingar telja líklegt að bólusetningar muni veita að minnasta kosti einhverja vörn gegn Ómíkrón en það muni taka um tvær vikur í viðbót að afla frekari upplýsinga um hinar fjölmörgu stökkbreytingar afbrigðisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×