Sport

Osaka hefur áhyggjur af týndu tenniskonunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Naomi Osaka er ein stærsta íþróttastjarna heims.
Naomi Osaka er ein stærsta íþróttastjarna heims. getty/TPN

Naomi Osaka hefur áhyggjur af kínversku tenniskonunni Peng Shuai sem hefur ekki sést opinberlega síðan hún sakaði fyrrverandi varaforsætisráðherra Kína um kynferðisofbeldi.

Í færslu á samfélagsmiðlinum Weibo í byrjun mánaðarins sagði Peng að Zhang Gaoli, sem var varaforsætisráðherra Kína á árunum 2013-18, hefði þvingað sig til að stunda kynlíf með honum. Færslunni var fljótlega eytt sem og öðru efni frá Peng  á Weibo. Þá var ekki einu sinni hægt að leita eftir orðinu tennis á Weibo sem kínverski kommúnistaflokkurinn vaktar.

Ekki hefur sést til Peng frá því að hún skrifaði færsluna. Alþjóðatennissamband kvenna (WTA) hefur þó fengið það staðfest að Peng sé ekki í hættu. Enn hefur þó ekki náðst í hana.

Nokkrar tennisstjörnur hafa lýst yfir áhyggjum sínum af Peng, nú síðast Osaka. „Nýlega var mér tjáð að tenniskona hefði horfið eftir að hún greindi frá því að hún hefði verið misnotuð kynferðislega,“ skrifaði Osaka á Twitter.

„Ég vona að Peng Shuai og fjölskylda hennar séu örugg og í lagi. Ég er í áfalli yfir stöðunni og sendi henni ást og ljós.“

Klippa: Áhyggjufull Osaka

Forseti WTA, Steve Simon, hrósaði Peng fyrir hugrekki sitt og hvatti kínversk yfirvöld til að rannsaka ásakanir hennar gegn Zhang. Hann hefur ekki tjáð sig um þær hingað til.

Peng, sem er 35 ára, vann Wimbledon mótið 2013 og Opna franska meistaramótið ári seinna í tvíliðaleik. Um tíma var hún í efsta sæti heimslistans í tvíliðaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×