Erlent

Hand­tóku einn af heimildar­mönnum Steele-skýrslunnar um Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sagði ítrekað að rannsóknir á mögulegum tengslum hans og framboðs hans við ríkisstjórn Rússlands væru nornaveiðar.
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sagði ítrekað að rannsóknir á mögulegum tengslum hans og framboðs hans við ríkisstjórn Rússlands væru nornaveiðar. EPA/JIM LO SCALZO

Alríkislögregumenn handtóku í dag greinanda sem safnaði gögnum sem notuð voru í að skrifa umdeilda skýrslu um möguleg tengsl Donalds Trump, fyrrverandi forseta, við yfirvöld í Rússlandi.

Handtaka greinandans, sem heitir Igor Danchenko, er til komin vegna rannsóknar John H. Durham, sem skipaður var af ríkisstjórn Trumps til að rannsaka uppruna Rússannsóknarinnar svokölluðu.

Danchenko safnaði gögnum sem notuð voru í Steele-skýrsluna svokölluðu en hún innihélt frásagnir af sögusögnum og ósönnuðum staðhæfingum um að Trump og framboð hans hefði verið í slagtogi við stjórnvöld í Rússlandi í aðdraganda forsetakosninganna 2016.

Washington Post segir Danchenko hafa verið einn helsta heimildarmann Steele.

Skýrsluna tók hann saman fyrir rannsóknafyrirtækið Fusion GPS sem hafði verið ráðið til að rannsaka tengsl Trump við Rússland, fyrst af andstæðingum Trump í forvali Repúblikanaflokksins en síðar af landsnefnd Demókrataflokksins.

Laug að rannsakendum FBI

New York Times segir frá handtökunni en í nýopinberaðri ákæru kemur fram að Danchenko er sakaður um að hafa logið að rannsakendum Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI).

Í ákærunni, sem er í fimm liðum, er Danchenko sagður hafa logið um tvær manneskjur. 

Annars vegar er hann sagður hafa logið um samskipti sín við aðila sem var virkur í starfsemi Demókrataflokksins og notast við upplýsingar frá þeim aðila í gögnunum sem hann sendi Steele.

Þá er hann sagður hafa logið að FBI-liðum um símtal sem hann sagðist hafa fengið frá rússneskum aðila um tengsl Trumps við Rússland. Í ákærunni segir að það símtal hafi aldrei átt sér stað.

Umdeild skýrsla

Hlutar Steele-skýrslunnar voru notaðir í umsókn FBI um hlerunarheimild gagnvart fyrrverandi starfsmanni framboðs Trumps. Aðrir hlutar hennar, og þar á meðal frásögn af Trump með vændiskonum í Moskvu, ollu miklu fjaðrafoki vestanhafs.

Stórir hlutar skýrslunnar hafa aldrei verið sannaðir og sumir hafa reynst ósannir.

Þeir hlutar skýrslunnar sem þóttu mikilvægastir komu frá Danchenko. Christopher Steele, sem starfaði áður í leyniþjónustu Bretlands og sérstaklega um málefni Rússlands, skrifaði skýrsluna. Notaði hann meðal annars gögn frá Danchenko.

Innri endurskoðandi bandaríska dómsmálaráðuneytisins gagnrýndi starfsmenn FBI í skýrslu árið 2019, fyrir það sérstaklega að hafa vísað í gögn úr Steele-skýrslunni. Það hafi verið gert þó að Danchenko hafi í viðtölum við FBI dregið úr trúverðugleika skýrslunnar. Þá kom fram í skýrslu endurskoðandans að áratug áður hafði Danchenko verið til rannsóknar vegna gruns um að hann væri útsendri leyniþjónusta Rússlands.

Rannsökuðu fyrst afskipti Rússa

Rússarannsókn Robert Mueller, sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, snerist upphaflega um afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016.

Svo snerist hún einnig um hvort starfsmenn framboðs Trump hafi átt í samstarfi við Rússa og hvort Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar, meðal annars með því að reka James Comey, fyrrverandi yfirmann Alríkislögreglu Bandaríkjanna. Forsetinn sagði svo í sjónvarpsviðtali skömmu seinna að hann hefði gert það vegna Rússarannsóknarinnar.

Upprunalega var rannsóknin á höndum Alríkislögreglu Bandaríkjanna. Það var eftir að sendiherra Ástralíu gerði bandarískum yfirvöldum viðvart um að George Papadopoulos, utanríkismálaráðgjafi framboðs Trump, sagði sér á krá í London að Rússar byggju yfir fjölda tölvupósta Hillary Clinton. Það var áður en póstarnir voru birtir af Wikileaks og vitað var að rússneskir hakkarar hefðu stolið þeim af landsnefnd Demókrataflokksins.

Sjá einnig: Yfirheyrðu höfund umdeildrar skýrslu um Trump í sextán tíma

Sérstakur rannsakandi var skipaður eftir að í ljós kom að Jeff Sessions, þáverandi dómsmálaráðherra, hafði sagt ósatt um samskipti sín við sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.

Mueller staðfesti mat leyniþjónustu Bandaríkjanna að rússnesk stjórnvöld hafi reynt að hafa áhrif á kosningarnar og tryggja Trump sigur.

Ekkert samráð

Rannsóknin leiddi ekki ljós glæpsamlegt samráð við Rússa en Trump forseti var þó ekki sýknaður af því að hafa staðið í vegi fyrir því að réttlætið næði fram að ganga, þó hann hafi ítrekað haldið því fram.

34 einstaklingar voru ákærðir vegna rannsóknarinnar og fyrir ýmsa glæpi. Þar á meðal eru sex fyrrverandi bandamenn og ráðgjafar Trump eins og fyrrverandi kosningastjóri hans, aðstoðarkosningastjóri, þjóðaröryggisráðgjafi og persónulegur lögmaður hans.

Í stjórnartíð Trumps var John Durham gert að rannsaka uppruna Rússarannsóknarinnar.AP/Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna

Auk þess var hópur rússneskra starfsmanna „Tröllaverksmiðjunnar“ svokölluðu og aðrir ákærðir fyrir afskipti þeirra af kosningunum.

Sjá einnig: Upplýsingahernaður háður úr „Tröllaverksmiðju“ í Pétursborg

William Barr, fyrrverandi dómsmálaráðherra, skipaði John Durham árið 2019 að rannsaka uppruna Rússarannsóknarinnar en seinna það ár var rannsókn Durhams svo skilgreind sem sakamálarannsókn.

Fyrir daginn í dag hafði rannsókn Durham leitt til þess að lögmaður sem tengist Demókrataflokknum var ákærður fyrir að ljúga að rannsakendum FBI og fyrrverandi lögmaður FBI viðurkenni að hafa breytt tölvupósti í tengslum við rannsókn stofnunarinnar á fyrrverandi starfsmanni framboðs Trumps.


Tengdar fréttir

Leita í húsum sem tengjast rússneskum ólígarka

Starfsmenn Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) leituðu í dag í húsum í Washington DC og New York sem sögð eru tengjast rússneska auðjöfrinum Oleg Deripaska. Atlagan tengist rannsókn FBI en yfirvöld Bandaríkjanna hafa beitt Deripaska refsiaðgerðum vegna afskipta Rússa af forsetakosningunum 2016.

Ríkisstjórn Trump fékk gögn um símanotkun blaðamanna

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna í forsetatíð Donalds Trump fékk á laun gögn um símanotkun blaðamanna Washington Post í tengslum við umfjöllun þeirra um afskipti Rússa af forsetakosningunum árið 2016. Það reyndi ennfremur að komast yfir upplýsingar um tölvupósta blaðamannanna.

Teikna beina línu frá framboði Trumps til Rússa

Ríkisstjórn Joes Biden, forseta Bandaríkjanna, opinberaði í gær að samstarfsmaður starfsmanna framboðs Donalds Trump, fyrrverandi forseta, útvegaði rússneskum leyniþjónustum gögn úr framboðinu.

Dómsmálaráðherrann hættir skömmu fyrir embættistöku Bidens

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti nú í kvöld að William Barr, dómsmálaráðherra, væri að hætta í starfi sínu. Í tísti segir Trump að Barr vilji hætta, einungis fimm vikum áður en starfstímabil hans rennur út, til að verja hátíðunum með fjölskyldu sinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×