Menning

Starfsemi Íslensku óperunnar sögð rýr: „Er þetta fólk allt saman á fullu kaupi?“

Jakob Bjarnar skrifar
Framlag ríkisins fyrir rekstrarárið 2019-2020 til Íslensku óperunnar var ríflega 230 milljónir króna og er þá ótalinn kostnaður við skrifstofuhald í Hörpu. Jón Viðar Jónsson og Þórunn Gréta gagnrýna rýra uppskeru en ekki náðist í Steinunni Birnu Óperustjóra.
Framlag ríkisins fyrir rekstrarárið 2019-2020 til Íslensku óperunnar var ríflega 230 milljónir króna og er þá ótalinn kostnaður við skrifstofuhald í Hörpu. Jón Viðar Jónsson og Þórunn Gréta gagnrýna rýra uppskeru en ekki náðist í Steinunni Birnu Óperustjóra.

Jón Viðar Jónsson, fræðimaður og gagnrýnandi, furðar sig á takmarkaðri starfsemi Íslensku óperunnar og varpar fram krefjandi spurningum um starfsemina þar sem honum þykir klén.

Þórunn Gréta Sigurðardóttir tekur þátt í umræðu sem skapast á Facebooksíðu Jóns Viðars um þetta efni en hún er jafnframt formaður Tónskáldafélagsins. Þórunn Gréta bendir á að ríkið hafa velt ríflega 230 milljónum til Íslensku óperunnar 2019-2020, þar af hafi farið tæplega 60 milljónir í starfsmannakostnað og liggi þá ekkert fyrir um leigugjöld fyrir aðstöðu í Hörpu árið um kring.

„Hvað er eiginlega að frétta af Íslensku óperunni? Hún endursýnir gamla sýningu á hinni óútslítanlegu La traviötu nú eftir nokkra daga - en síðan er, ef marka má heimasíðuna, engin starfsemi fyrr en einhvern tímann á næsta ári - jafnvel ekki fyrr en næsta vor?!“

Jón Viðar bendir á að við Óperuna starfi fimm einstaklingar auk óperustjórans og eru þau öll titluð sem einhvers konar stjórar: „Þannig að ekki verður aðgerðarleysið skrifað á starfsmannaskort!! Eða vantar þau kannski undirmenn til að stjórna?“ spyr gagnrýnandinn vægðarlaus.

58 milljónir fóru í laun til fastráðinna starfsmanna

Jón Viðar spyr áfram og meðal annarra orða: „Er þetta fólk allt saman á fullu kaupi? Og hvert er framlag ríkisins - er það ef til vill hætt að styðja þessa starfsemi - og hefur hugsað sér að láta útförina fram í kyrrþey?

Það hlýtur að vera meiren kominn tími til að Óperan - og raunar ekkert síður stjórnvöld - geri hreint fyrir sínum dyrum og skýri okkur frá því hvernig hér sé í pottinn búið og hverjar séu raunverulegar framtíðarhorfur óperulistar á Íslandi.“

Þórunn Gréta Sigurðardóttir er formaður Tónskáldafélagsins og hún telur þetta gildar spurningar hjá Jóni Viðari. Hún bendir á, í athugasemd við færsluna að formenn sjö fag- og stéttarfélaga tónlistar- og sviðslistafólks hafi verið í virku samtali við Mennta- og menningarmálaráðuneytið vegna málefna Íslensku óperunnar frá árinu 2019, í kjölfar þess að Þóra Einarsdóttir stefndi stofnuninni vegna kjaramála. En Vísir fjallaði ítarlega um það mál á sínum tíma.

„Ríkisframlagið var skv. ársreikningi fyrir rekstrarárið 2019-2020 ríflega 230 milljónir og hækkaði um rúmlega 10 milljónir frá árinu þar á undan. Þar af fóru rúmlega 58 milljónir í laun og launatengd gjöld til fastráðinna starfsmanna,“ segir Þórunn Gréta.

Hversu marga fasta starfsmenn þarf til að framleiða eina sýningu á ári?

Hún segir jafnframt að því sé ósvarað hversu hátt hlutfall ríkisframlagsins fari í húsaleigu vegna skrifstofuhúsnæðis Íslensku óperunnar í Hörpu allan ársins hring.

„Það má einnig spyrja hvað það þarf marga fasta starfsmenn til að framleiða eina sýningu á ári. Þá er ekki ljóst hvort samstarfssamningur hafi verið gerður milli ÍÓ og ríkisins um áframhaldandi starfsemi, sá síðasti rann út í árslok 2019 en geirinn bindur vonir við að hún verði stokkuð upp og horft verði til niðurstöðu meirihluta nefndar um stofnun þjóðaróperu,“ segir formaður Tónskáldafélagsins.

Steinunn Birna Ragnarsdóttir er Óperustjóri. Vísir vildi bera þessa gagnrýni undir hana og hringdi í símanúmerið sem upp er gefið á heimasíðu Óperunnar. Þar var fyrir svörum símsvari sem sagði: „Þú ert kominn í samband við Íslensku óperuna, ýttu á 1 fyrir skrifstofu, 2 fyrir miðasölu. Press 3 for English.“ Þegar svo ýtt var á 1 kom í eyrað ómúsíkalskt píp eða ískur eins kemur þegar hringt er í ógáti í faxvél.


Tengdar fréttir

Söngvarar lýsa yfir vantrausti og bera óperustjóra þungum sökum

Félagsfundur Klassís, fagfélags klassískt menntaðra söngvara á Íslandi, hefur lýst yfir vantrausti á stjórn og óperustjóra Íslensku óperunnar, Steinunni Birnu Ragnarsdóttur, „vegna stjórnunarhátta stofnunarinnar á undanförnum árum.“ 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.