Fótbolti

Himinlifandi Danir fá 1.600 milljóna innspýtingu sem Ísland missir eflaust af

Sindri Sverrisson skrifar
Þjálfarinn Kasper Hjulmand fékk létta Carlsberg-sturtu eftir að Danir tryggðu sér sæti á HM í vikunni.
Þjálfarinn Kasper Hjulmand fékk létta Carlsberg-sturtu eftir að Danir tryggðu sér sæti á HM í vikunni. Getty/Lars Ronbog

Danir eru í skýjunum eftir að hafa tryggt sér sæti á HM karla í fótbolta með ótrúlega sannfærandi hætti en þeir hafa ekki fengið á sig eitt einasta mark í undankeppninni, skorað 27 og unnið alla átta leiki sína. Árangurinn færir danska knattspyrnusambandinu háar fjárhæðir.

Með því að tryggja sér sæti á HM í Katar hefur danska knattspyrnusambandið þegar tryggt sér 78 milljónir danskra króna frá FIFA, eða tæplega 1,6 milljarð íslenskra króna, sama hvernig gengi Danmerkur verður á mótinu. Eftir því sem lið komast lengra á mótinu fá þau hærra verðlaunafé.

Þýskaland og Danmörk eru einu liðin sem tryggt hafa sér sæti á HM, ásamt gestgjöfunum í Katar.

Mikil hækkun frá HM í Brasilíu

Samkvæmt grein Ekstrabladet getur Danmörk mest fengið jafnvirði 6,8 milljarða íslenskra króna en þá þarf liðið að verða heimsmeistari.

Danmörk lék á HM í Rússlandi fyrir tveimur árum, líkt og Ísland, og litlu munaði að liðin mættust í 16-liða úrslitunum. Þar féllu Danir úr leik eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni gegn Króatíu.

Verðlaunaféð hækkar umtalsvert á milli móta eða um rúm 30%, og hefur hækkað um 80% frá því á HM 2014 í Brasilíu, samkvæmt Ekstrabladet. Það sé því ekki skrýtið að menn brosi út að eyrum í höfuðstöðvum danska knattspyrnusambandsins í Bröndby.

Eftir að íslenska karlalandsliðið í fótbolta tryggði KSÍ samtals um 3 milljarða króna með árangri sínum á EM 2016 og HM 2018 missti liðið afar naumlega af Evrópumótinu síðasta sumar og á aðeins agnarsmáa möguleika á að komast á HM 2022.


Tengdar fréttir

Enn mögulegt að Ísland komist á HM í Katar

Eins ótrúlega og það kann að hljóma þá er enn mögulegt að íslenska karlalandsliðið í fótbolta komist á HM í Katar. Möguleikinn er vissulega mjög, mjög fjarlægur en riðillinn sem Ísland leikur í er einstaklega jafn.

Margir úrslitaleikir fram undan

Þrjú lið hafa nú tryggt sér sæti á heimsmeistaramóti karla í fótbolta í Katar sem fram fer í nóvember og desember á næsta ári. Fram undan eru því leikir upp á líf og dauða í mörgum riðlum í undankeppninni í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×