Innlent

Borgar Þór í stöðu Árna Páls hjá Uppbyggingasjóði EES

Samúel Karl Ólason skrifar
Borgar Þór Einarsson.
Borgar Þór Einarsson.

Borgar Þór Einarsson mun taka við stöðu varaframkvæmdastjóra Uppbyggingarsjóðs EES í Brussel. Borgar Þór var tilnefndur af íslenskum stjórnvöldum og stjórn sjóðsins tók þá ákvörðun að ráða hann.

Hann mun fara með samskipti EFTA-ríkjanna í EES, Íslands, Noregs og Liechtenstein, við viðtökuríki sjóðsins í Suður- og Austur-Evrópu, samkvæmt tilkynningu á vef Stjórnarráðs Íslands.

Árni Páll Árnason hefur gegnt starfi varaframkvæmdastjóra Uppbyggingarsjóðs EES frá árinu 2018. Hann er hins vegar að láta af störfum og ganga til liðs við nýja stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

Sjá einnig: Árni Páll kemur nýr inn í stjórn ESA

Borgar Þór er hæstaréttarlögmaður en frá janúar 2017 hefur hann starfað sem aðstoðarmaður utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, samkvæmt áðurnefndri tilkynningu. Þar hefur hann sérstaklega sinnt málefnum EES-samstarfsins, starfsemi EFTA og utanríkisviðskiptum. Hann situr jafnframt í stjórn Íslandsstofu og Grænvangs.

Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2004 með áherslu á þjóðarétt. Hann hefur víðtæka reynslu af lögfræði- og lögmannsstörfum í alþjóðlegum verkefnum. Borgar Þór hefur meðal annars flutt mál fyrir EFTA-dómstólnum.

Borgar Þór var sjálfstætt starfandi lögmaður frá 2010 sem eigandi hjá lögmannsstofunni OPUS og síðar CATO. Fyrir það vann hann sem lögfræðingur í Landsbankanum og löglærður fulltrúi á lögmannsstofunni LEX. Hann var varaformaður Lögmannafélags Íslands 2012-13 og á árunum 2003 til 2004 var hann aðstoðarmaður menntamálaráðherra.

Markmið Uppbyggingarsjóðs EES er að draga úr efnahagslegum og félagslegum ójöfnuði á Evrópska efnahagssvæðinu og stuðla að eflingu tvíhliða samstarfs milli EES/EFTA-ríkjanna og viðtökuríkjanna fimmtán: Búlgaríu, Eistlands, Grikklands, Kýpur, Lettlands, Litáens, Möltu, Portúgal, Póllands, Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu, Króatíu, Tékklands og Ungverjalands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×