Málið má rekja til þess að Héraðssaksóknari ákærði lögreglumanninn fyrir brot í opinberu starfi vegna athafna hans við húsleit að kvöldi 22. maí árið 2019.
Var hann sakaður um að hafa sýnt af sér stórfellda vanrækslu eða hirðuleysi í starfi sínu þegar hann lét hjá líða að leggja hald á kannabisblandaðan vökva sem var í potti á eldavél. Einnig var hann talinn hafa ekki sinnt skyldum sínum sem lögreglumaður til að framkvæmda frekari leit í húsnæðinu.
Lítið magn og lítil gæði
Héraðsdómur Suðurlands og Landsréttur sýknuðu lögreglumanninn þrátt fyrir að það teldist sannað að hann hefði látið hjá líða að leggja hald á 300-500 millilítra af vökva sem átti að búa til kannabisolíu úr og að um fíkniefni hefði verið að ræða í skilningi laga.
Gæði og magn efnisins réðu því meðal annars að lögreglumaðurinn var ekki talinn sekur um vanrækslu eða hirðuleysi en Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að þótt sannað væri að lögreglumaðurinn hefði ekki lagt hald á efnið sem átti að gera kannabisolíu úr, fæli það ekki í sér stórfellda vanrækslu eða hirðuleysi í ljósi þess hversu lítið magn var af vökvanum og hlutfall tetrahýdrókannabínóls í því lágt.
Ákæruvaldið óskaði eftir því að fá að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar, en í málskotsbeiðni ríkissaksóknara segir að ákæruvaldið telji dóm Landsréttar bersýnilega rangan að efni til, auk þess sem að mikilvægt sé að fá úr því skorið af Hæstarétti hvernig beita eigi í ákvæði í hegningarlögum sem snýr að vanrækslu opinberra starfsmanna, ekki síst í ljósi þess að málið snúist um ætlað brot lögreglumanns í starfi.
Í ákvörðun Hæstaréttar segir að ekki verði séð að málið lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu. Þá sé niðurstaða Landsréttar um sýknu að hluta til byggð á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar, það mat verði ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti. Var beiðninni því hafnað.