Innlent

Segir mikilvægt að fella ríkisstjórnina

Samúel Karl Ólason skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Vísir/Stína

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir kjördaginn hafa byrjað vel. Hún hafi hitt fólk á kosningaskrifstofu Viðreisnar og dagurinn hafi verið góður. Hún vonast til þess að ríkisstjórnin falli og frjálslynd miðjustjórn taki við.

Hún mun verja deginum á kosningaskrifstofum Viðreisnar og hringja í kjósendur.

„Að fá atkvæðin í hús,“ sagði Þorgerður Katrín. „Það er búið að vera mikið stuð í þessari kosningabaráttu. Mér hefur liðið vel í henni og það er búið að vera nóg að gera. Okkur hefur verið tekið feykilega vel.“

Hún sagði það svolitla áskorun að vera með stefnu sem búi ekki á skyndilausnum, heldur fái fólk til að hugsa lengra.

„Það er snúið en ég held það sé eitt af hlutverkum okkar sem eru í pólitík að bjóða upp á heildstæða mynd, langtímalausnir sem byggja upp framtíðina fyrir okkur,“ sagði hún.

Þorgerður Katrín sagðist mikil keppnismanneskja og hún vildi fá nægilegt fylgi til að fella núverandi ríkisstjórn.

„Mér finnst það skipta miklu máli. Að hún falli. Þrátt fyrir þetta sómafólk sem í henni er, þá er þetta mikil kyrrstöðu-ríkisstjórn og við erum ekki að fara inn í framtíðina. Við erum ekki að fara í umbætur í sjávarútvegi, í heilbrigðismálum og hvað þá gjaldmiðilsmálum eða loftslagsmálum, nema þessi ríkisstjórn fái einhverja viðvörun og við fáum eitthvað nýtt.“

Hún segir að símtölin milli formanna og forsvarsmanna stjórnmálaflokka muni byrja strax í kvöld. Snertingar séu þegar byrjaðar. Annars væri það ótímabært fyrr en búið sé að telja úr kjörkössunum.

Þorgerður Katrín sagði Viðreisn vilja frjálslynda miðjustjórn og jaðarpólitík yrði hætt. Það hefði leitt til ákveðnar stöðnunar og kreddupólitíkur. Það þyrfti að hreyfa og ýta við málum fyrir fólkið í landinu.

„Á endanum snýst þetta um málefnin og það er það sem mun fá okkur að ríkisstjórnarborðinu, að það verði samið um okkar málefni líka.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×