Fótbolti

Asensio með þrennu í stór­sigri Real

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Marco Asensio átti stórleik í kvöld.
Marco Asensio átti stórleik í kvöld. David S. Bustamante/Getty Images

Real Madríd vann 6-1 stórsigur á Mallorca í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta, í kvöld. Sigurinn lyfti Real upp á topp deildarinnar.

Karim Benzema kom heimamönnum yfir strax á 3. mínútu. Rúmlega tuttugu mínútum síðar skoraði Marco Asensio annað mark Real og sitt fyrsta mark í leiknum. Aðeins mínútu síðar minnkaði Kang-In Lee muninn fyrir gestina.

Asensio kom Real í 3-1 á 29. mínútum eftir að hann slapp einn í gegn eftir frábæra sendingu Benzema. Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik en í þeim síðari hélt stórsókn Real áfram.

Asensio skoraði sitt þriðja mark og fjórða mark Real þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Benzema kom Real í 5-1 á 78. mínútu og Isco fullkomnaði magnaðan leik heimamanna með marki á 84. mínútu.

Lokatölur 6-1 og Real er komið á toppinn með 16 stig að loknum sex leikjum. Þá er liðið búið að skora 21 mark en aðeins tvö önnur lið hafa skorað tíu mörk eða meira í deildinni, Valencia og Rayo Vallecano.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.