Erlent

Newsom stendur af sér áhlaupið í Kaliforníu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Newsom ræddi við blaðamenn eftir að ljóst varð að hann stóð af sér áhlaupið.
Newsom ræddi við blaðamenn eftir að ljóst varð að hann stóð af sér áhlaupið. AP/Rich Pedroncelli

Repúblikönum í Kalíforníu hefur mistekist að hrekja ríkisstjórann Gavin Newsom úr embætti. Kosið var í ríkinu um hvort Newsom ætti að víkja en mikill meirihluti þáttakenda í kjörinu var á því að Newsom ætti að sitja áfram.

Reglurnar í Kalíforníu eru á þá leið að aðeins lítill hluti íbúa getur farið fram á atkvæðagreiðslu um hvort ríkisstjórinn eigi að víkja á miðju kjörtímabili. 

Andstæðingum Newsom tókst að ná tilskildum fjölda en hann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir harðar aðgerðir í kórónuveirufaraldrinum, sem hann hefur svo ekki farið sjálfur eftir í einu og öllu. 

Til að mynda fréttist af honum að borða á veitingastað ásamt fjárhagslegum bakhjörlum á sama tíma og öðrum íbúum Kalíforníu var gert að halda sig heima hjá sér þegar faraldurinn var í mikilli sókn. 

Fjörutíu og sex frambjóðendur af ýmsu tagi buðu sig fram til að taka við af Newsom en á endanum fóru leikar á þann veg að hann hefur fengið um tvo þriðju hluta atkvæða í kjörinu þegar búið er að telja um 60 prósent atkvæða. 

Þrátt fyrir óvinsældir Newsom er því um öruggan sigur að ræða en talið er að helsti mótframbjóðandi hans, Larry Elder, hafi í raun komið honum til hjálpar. Elder er eldheitur stuðningsmaður Donalds Trump, fyrrverandi forset,a sem er ekki sérstaklega vinsæll í Kalíforníu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.