Sport

Hlaut gull aðra leikana í röð

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kipchoge vann sín fjórðu verðlaun á Ólympíuleikum í dag.
Kipchoge vann sín fjórðu verðlaun á Ólympíuleikum í dag. Lintao Zhang/Getty Images

Kenýumaðurinn Eliud Kipchoge fagnaði sigri í maraþoni karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í nótt. Hann hlaut gull í greininni aðra leikana í röð.

Kipchoge kom í mark á tveimur klukkustundum, átta mínútum og 38 sekúndum. Hann var tæpri einni og hálfri mínútu á undan Hollendingnum Abdee Nageeye í mark, sem hlaut silfur eftir að hafa komið í mark á 2:09:58.

Belginn Bashir Abdi hlaut brons en hann kom aðeins tveimur sekúndum á eftir Nageeye á 2:10:00 sléttum.

Kipchoge er að verja Ólympíutitil sinn í greininni en hann er 36 ára gamall. Hann er að keppa á sínum fjórðu leikum en hann hlaut brons í 5000 metra hlaupi í Aþenu 2004 og silfur í sömu grein í Peking 2008. Hann tók ekki þátt á leikunum í Lundúnum 2012.

Kipchoge á heimsmetið í maraþoni en hann hljóp það á 2:01:39 árið 2018.

Kenýa vann tvöfalt í maraþoni á leikunum en landa Kipchoge, Peres Jepchirchir, fagnaði sigri í maraþoni kvenna í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×