Sport

Tólf og þrettán ára komust á pall í hjólabrettakeppninni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Samanlagður aldur verðlaunahafanna í hjólabrettakeppninni á Ólympíuleikunum var aðeins 44 ár.
Samanlagður aldur verðlaunahafanna í hjólabrettakeppninni á Ólympíuleikunum var aðeins 44 ár. getty/Marijan Murat

Gull- og silfurverðlaunin í hjólabrettakeppni kvenna á Ólympíuleikunum í Tókýó fóru til Japans. Tvær kornungar stúlkur komust á pall í greininni.

Sakura Yosozumi hrósaði sigri í hjólabrettakeppninni sem er ný keppnisgrein á Ólympíuleikunum. Yosozumi fékk 60.09 í einkunn. Japan hefur nú unnið til tuttugu gullverðlauna á Ólympíuleikunum á heimavelli.

Í 2. sæti varð Kokona Hiraki frá Japan með 58.05 í einkunn. Hiraki er fædd 26. ágúst 2008 og er því aðeins tólf ára.

Hiraki er yngsti verðlaunahafi á Ólympíuleikunum í 85 ár, eða síðan Frakkinn Noël Vandernotte vann brons í róðri á Ólympíuleikunum í Berlín 1936. Hann var þá tólf ára líkt og Hiraki er núna.

Sky Brown frá Bretlandi lenti í 3. sæti með 47,53 í einkunn. Hún er þrettán ára og 28 daga gömul og er yngsti verðlaunahafi Breta í Ólympíusögunni. Gamla metið átti Sarah Hardcastle sem vann silfur og brons í sundi á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984, þá fimmtán ára.

Hin japanska Misugu Okamoto lenti í 4. sæti. Hún þótti sigurstranglegust en datt í öllum þremur tilraunum sínum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.