Fótbolti

Leikmenn munu halda áfram að krjúpa á hné

Valur Páll Eiríksson skrifar
Leikmenn munu áfram sýna samstöðu með réttindabaráttu svartra með því að krjúpa á hné fyrir leiki í ensku úrvalsdeildinni í vetur.
Leikmenn munu áfram sýna samstöðu með réttindabaráttu svartra með því að krjúpa á hné fyrir leiki í ensku úrvalsdeildinni í vetur. EPA-EFE/Paul Childs/NMC/Reuters Pool

Leikmenn í ensku úrvalsdeildinni munu halda áfram að krjúpa á hné til að sýna samstöðu með réttindabaráttu svartra á komandi leiktíð.

Leikmenn hófu að krjúpa á hné sumarið 2020 þegar keppni hófst í ensku úrvalsdeildinni eftir hlé vegna kórónuveirufaraldursins. Aðgerðirnar komu í kjölfar morðsins á bandaríkjamannsins George Floyd, sem er dökkur á hörund, af hendi hvíts lögreglumanns, Derek Chauvin, í Minneapolis í Bandaríkjunum í maí 2020.

Í kjölfar þess hófust mikil mótmæli í Bandaríkjunum og víðar um heim þar sem kallað var eftir aðgerðum til að draga úr kerfisbundnu kynþáttamisrétti, en Floyd er langt í frá fyrsti svarti maðurinn sem myrtur er af hvítum lögreglumanni fyrir litlar sakir. Enska úrvalsdeildin tók þátt í þeirri hreyfingu, Black Lives Matter-hreyfingunni, þar sem leikmenn báru þau orð meðal annars á baki sínu í stað nafna í einni umferð sumarið 2020.

Enska úrvalsdeildin tilkynnti í dag að áfram yrði staðið með réttindabaráttu svartra á komandi leiktíð. Áfram verður kropið á hné á komandi leiktíð og þá munu leikmenn bera á erminni stimpil með orðunum No Room for Racism, eða ekkert rými fyrir kynþáttafordóma, sem er verkefni sem enska úrvalsdeildin stendur að og er ætlað að draga úr kynþáttafordómum innan fótboltans á Englandi.

Ákvörðunin var tekin eftir fund forráðamanna deildarinnar með samtökum fyrirliða í deildinni.

„Okkur finnst að nú meira en nokkru sinni, sé mikilvægt að halda áfram að krjúpa á hné sem tákn um einingu okkar gegn hvers kyns kynþáttamismunun,“ er haft eftir fyrirliðasamtökunum í tilkynningu frá ensku úrvalsdeildinni.

Keppni í deildinni hefst föstudaginn 13. ágúst þegar Arsenal heimsækir nýliða Brentford, áður en heil umferð fer fram þá helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×