Í kvöldfréttum okkar á Stöð 2 í gær greindum við frá nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofuna sem sýndi að Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað þremur prósentustigum frá síðustu könnun fyrirtækisins í júní og mælist nú með 20,9 prósent atkvæða. Samfylkingin, Píratar og þá sérstaklega Sósíalistaflokkurinn sækja í sig veðrið á milli kannana en aðrir flokkar standa nánast í stað eða dala milli kannanna. Þá mælist Flokkur fólksins með 4,2 prósent og næði ekki manni á þing.

Menntun fólks hefur töluvert að segja um stuðning við einstaka flokka en mismikið þó eftir flokkum.

Þannig nýtur Sjálfstæðisflokkurinn mest fylgis þeirra sem eru einungis með grunnskólapróf, eða 26,6 prósenta en einungis 16,8 prósenta fólks með framhaldsmenntun á háskólastigi. Fylgi Vinstri grænna og Samfylkinginar vex hins vegar með aukinni menntun og myndu 19,4 prósent háskólamenntaðra kjósa Vinstri græn og 17,5 prósent Samfylkinguna.
Munurinn er ekki eins sláandi hjá öðrum flokkum en einungis 1,3 prósent fólks með framhaldsmenntun á háskólastigi myndu þó kjósa Miðflokkinn en 9,2 prósent grunnskólamenntaðra.

Tekjur skipta líka máli. Þeir sem eru með heimilistekjur undir fjögur hundruð þúsundum myndu flestir kjósa Samfylkinguna, eða 29 prósent, langt yfir almennri fylgisspá sem er 13,7 prósent. Hjá Sjálfstæðisflokki er þessu öfugt farið þar sem einungis 11 prósent í lægsta tekjuflokknum myndu kjósa hann, en 30,3 prósent þeirra sem eru með meira en tólf hundruð þúsund krónur í heimilistekjur, langt yfir almennu fylgi flokksins í könnuninni.
Píratar, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins sækja líka mest af sínu fylgi til þeirra sem eru með heimilistekjur undir fjögur hundruð þúsund krónum, en Sósíalistaflokkurinn nýtur mest fylgis hjá þeim sem eru með 400 til átta hundruð þúsund í heimilistekjur á mánuði.

Aldur kjósenda skiptir líka miklu máli þegar kemur að fylgi flokka. Þannig nýtur Samfylkingin mest fylgis allra flokka í yngsta aldurshópnum eða um 26 prósenta.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar mikið forskot á aðra flokka í elstu aldurshópunum tveimur með stuðning 23. prósenta til tæplega 28 prósenta fólks eldra en fimmtíu ára.

Þá er mikill munur á því hvernig kynin kjósa. Sjálfstæðisflokkurinn er með yfirburðastöðu meðal karla en tæplega 26 prósent þeirra myndu kjósa hann samkvæmt könnun Maskínu.

Vinstri græn hafa aftur á móti vinninginn meðal kvenna. Tæplega 20 prósent þeirra myndu kjósa VG en einungis 3 prósent þeirra myndu kjósa Miðflokkinn sem annars nýtur tæplega 8 prósenta fylgis á meðal karla.
