Sport

Sunisa Lee hélt sigurgöngu Bandaríkjanna í fjölþrautinni áfram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sunisa Lee fagnar eftir að úrslitin í fjölþrautinni lágu fyrir.
Sunisa Lee fagnar eftir að úrslitin í fjölþrautinni lágu fyrir. getty/Jamie Squire

Hin átján ára Sunisa Lee frá Bandaríkjunum vann sigur í fjölþraut kvenna í fimleikakeppninni á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

Þetta er í fimmta sinn í röð sem Bandaríkin vinna gull í fjölþraut kvenna á Ólympíuleikunum. Simone Biles varð Ólympíumeistari í Ríó 2016 en dró sig sem kunnugt er úr keppni í fjölþrautinni að þessu sinni. Carly Patterson vann 2004, Nastia Liukin 2008 og Gabby Douglas 2012.

Lee, sem er á sínum fyrstu Ólympíuleikunum, glansaði í úrslitunum í fjölþrautinni í dag. Hún barðist um gullið við Rebecu Andrade frá Brasilíu og hinum rússnesku Angelinu Melnikovu og Vladislövu Urazovu.

Eftir að Lee fékk 13.700 í einkunn fyrir gólfæfingar sínar var Andrade sú eina sem gat komist upp fyrir hana. Það tókst ekki en sú brasilíska steig tvisvar út af í sínum gólfæfingum.

Andrade fékk samt silfur en hún er fyrsta suður-ameríska konan sem vinnur til Ólympíuverðlauna í áhaldafimleikum. Andrade hefur glímt við erfið meiðsli á ferlinum og slitið krossband í hné í þrígang, síðast 2019.

Lee fékk 57.433 í einkunn en Andrade 57.298. Melnikova fékk bronsið með 57.199 í einkunn. Urazova varð svo fjórða með 56.966 í einkunn. Þær voru báðar í sigurliði Rússa í liðakeppninni fyrr í vikunni.

Þrjár efstu í fjölþrautinni: Rebeca Andrade (silfur), Sunisa Lee (gull) og Angelina Melnikova (brons).getty/Jamie Squire

Lee varð efst á jafnvægisslá og tvíslá, Andrade í stökki og heimakonan Mai Murakami í gólfæfingunum.

Bresku tvíburarnir Jessica og Jennifer Gadirova, sem eru bara sextán ára, lentu í 10. og 13. sæti í fjölþrautinni. Í fyrradag unnu þær brons í liðakeppninni. Engin bresk kona hefur endað ofar í fjölþraut í sögu Ólympíuleikanna en Jessica.

Keppni á einstökum áhöldum fer fram á föstudaginn. Enn liggur ekki fyrir hvort Biles verði meðal þátttakenda þar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.