Innlent

Ráðherrar riða til falls

Snorri Másson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason eiga litlu fylgi að fagna í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur ef marka má nýja könnun.
Lilja Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason eiga litlu fylgi að fagna í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur ef marka má nýja könnun. Vísir/Vilhelm

Ásmundur Einar Daðason félags og barnamálaráðherra og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra myndu falla út af Alþingi ef gengið yrði til kosninga í dag, ef marka má skoðanakönnun sem MMR framkvæmdi fyrir Morgunblaðið. Þau leiða í hvoru Reykjavíkurkjördæmanna fyrir sig og formaður Framsóknarflokksins segir ljóst að flokkurinn þurfi að sækja fram í Reykjavík.

Þrátt fyrir að Framsóknarflokkurinn mælist á heildina litið með meira fylgi núna en hann hlaut í kosningum 2017, hefur stuðningur við flokkinn dalað í Reykjavík. Þar náði flokkurinn inn einum þingmanni í Reykjavík suður, Lilju Alfreðsdóttur. 

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum ætti Lilja ekki sama fylgi að fagna núna og heldur ekki Ásmundur Einar Daðason, sem tók þá áhættu í aðdraganda kosninganna núna að taka við Reykjavík norður, þar sem enginn Framsóknarmaður hefur getað tryggt sér sæti í síðustu tveimur kosningum.

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður flokksins sagði í símaviðtali við fréttastofu í dag að lengi hafi verið vitað að flokkurinn þurfi að sækja fram í Reykjavík. Hann telur þó nægt svigrúm til þess nú þegar tveir mánuðir eru til kosninga - og hefur fulla trú á ráðherrunum tveimur, sem hann segir hafa staðið sig vel svo eftir því hafi verið tekið.

VG missa 4%

Í nýjustu mælingum er Framsóknarflokkurinn með samtals 12,9% fylgi og bætir við sig, þegar bornar eru saman kannanir Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar frá því í júní og könnunar MMR fyrir Morgunblaðið í júlí.

Í samanburðinum má einnig sjá að Vinstri grænir missa rúm 4% og standa í 10,7% fylgi. Hinn samstarfsflokkur þeirra, Sjálfstæðisflokkur, er langstærsti flokkurinn á Alþingi með 24,6% fylgi, sem er örlítil hækkun frá fyrri könnun.

Litlar breytingar eru á fylgi Samfylkingarinnar, sem er 13 prósentum og Pírata sem eru í rúmum 12 prósentum.

Viðreisn, sem hefur verið á svipuðum slóðum, er hins vegar komin niður í 9,4%. Flokkur fólksins, Sósíalistar og Miðflokkur mælast allir með þrjá þingmenn inni, þ.e. rétt yfir 5 prósentunum.

Maskínukönnunin var framkvæmd í júní en MMR í júlí.Stöð 2

Framsókn að sækja fylgið aftur til Miðflokks

Enda þótt Miðflokkurinn bæti við sig á landsvísu, dalar fylgið í heimakjördæmi formanns flokksins, Norðausturkjördæmi. Þar er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson inni í mælingum en sem uppbótarþingmaður. Sósíalistar eru með meira fylgi en Miðflokkurinn í kjördæminu og næðu inn kjördæmakjörnum þingmanni.

Gunnar Smári Egilsson stofnandi Sósíalistaflokksins segir þetta ekki koma sérlega á óvart.

„Við höfum séð það áður að við mælumst ágætlega úti á landi, ekki síst í Norðausturkjördæmi. Við höfum markvisst unnið að því að ná til fólks úti á landi vegna þess að það er hættulegt fyrir flokka sem eru stofnaðir í Reykjavík að lokast þar inni.“

Sigurður Ingi sagði við fréttastofu að hann teldi ekki að Framsókn væri að taka til baka fylgi frá Miðflokknum en Gunnar Smári er á annarri skoðun. Hann telur raunar að sókn Framsóknar á kostnað Miðflokks, sérstaklega á landsbyggðinni, geti að lokum orðið til þess að ríkisstjórnin haldi velli.

„Þegar ég spyr fólk sem hefur innsýn inn í þessa tvo flokka, Framsókn og Miðflokkinn, er mér sagt að það sé flótti til baka frá þeim sem fóru yfir í Miðflokkinn,“ segir Gunnar Smári. Flokkur hans kynnir lista í kringum verslunarmannahelgi, en hann er eini frambjóðandinn sem vitað er til að verði á lista flokksins.


Tengdar fréttir

Konur hrifnari af sósíalisma en karlar

Í nýrri könnun sem MMR gerði fyrir Sósíalistaflokk Íslands, kemur fram að afstaða Íslendinga er almennt jákvæðari gagnvart sósíalisma en kapítalisma.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×