Sport

Segir að Conor ætti að reka Kavanagh

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Conor McGregor og John Kavanagh hafa unnið lengi saman.
Conor McGregor og John Kavanagh hafa unnið lengi saman. getty/Sportsfile

Michael Bisping leggur til að Conor McGregor skipti um þjálfara eftir tapið fyrir Dustin Poirier í UFC 264 um helgina.

Conor fótbrotnaði í lok 1. lotu og Poirier var dæmdur sigur á tæknilegu rothöggi. Þetta var þriðja tap Írans í síðustu fjórum bardögum.

Þjálfari Conors er Íslandsvinurinn John Kavanagh sem er einnig þjálfari Gunnars Nelson. Eftir bardagann gegn Poirier sagðist Kavanagh hafa verið sáttur með gang mála áður en Conor fótbrotnaði. Bisping, sem var fyrsti UFC-meistarinn frá Bretlandi, furðaði sig á ummælum Kavanaghs.

„Þjálfarinn hans sagðist ekki sjá neitt athugavert og ekkert sem olli honum áhyggjum og var viss um að ná rothöggi í 2. lotu. Ef það er rétt, John Kavanagh, ætti Conor að reka þig á stundinni,“ sagði Bisping.

„Hann var á bakinu og í miklum vandræðum. Þetta var 10-8 lota. Það er áhyggjuefni. Þú vilt ekki láta flengja þig en það var að gerast. Fótbrotið var óheppilegt en það gaf Conor afsökun eða ástæðu fyrir því að bardaginn endaði. Ef það hefði ekki gerst voru líkurnar á því að hann myndi snúa dæminu sér í vil í 2. lotu ekki miklar þar sem 1. lotan átti að vera besta lotan hans Conors. Þetta var ekki góð frammistaða.“

Conor gekkst undir aðgerð eftir bardagann og óvíst er hvenær hann getur snúið aftur í búrið.

MMA

Tengdar fréttir

Brotinn ökkli og tap hjá McGregor

Írski bardagakappinn Conor McGregor tapaði fyrri Bandaríkjamanninum Dustin Poirier er þeir mættust í UFC, blandaðar bardagalistir, í nótt. Poirier hafði betur þar sem Conor ökklabrotnaði í fyrstu lotu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×