Lífið

Fangelsisdómur Joe Exotic verði styttur

Árni Sæberg skrifar
Joe Exotic og Carole Baskin áttu í áralöngum deilum. Exotic afplánar nú fangelsisdóm fyrir að hafa reynt að láta ráða Baskin af dögum.
Joe Exotic og Carole Baskin áttu í áralöngum deilum. Exotic afplánar nú fangelsisdóm fyrir að hafa reynt að láta ráða Baskin af dögum. Netflix

Dómstóll í Colorado í Bandaríkjunum komst að þeirri niðurstöðu í dag að fangelsisdómur sem raunveruleikasjónvarpsstjarnan Joe Exotic hlaut í fyrra hafi verið of langur.

Joe Exotic, eða Joseph Maldonado-Passage eins og hann heitir réttu nafni, var í janúar í fyrra dæmdur til 22 ára fangelsisvistar fyrir að hafa tvívegis ráðið menn til að ráða erkióvin sinn Carole Baskin af dögum.

Dómstóll hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að ranglega hafi verið farið að þegar hann var dæmdur en hann var dæmdur fyrir atvikin tvö hvort í sínu lagi. Rétt hefði verið að líta á atvikin sem einn glæp.

Því hefur dómstólnum sem dæmdi Joe upphaflega verið gert að taka málið upp aftur. Búast má við að fangelsisvist hans verði stytt um allt að fjögur ár.

Joe Exotic öðlaðist heimsfrægð þegar Netflix framleiddi heimildaþáttaröðina Tiger King: Murder, Mayhem and Madness um hann árið 2020. 

Hann rak um árabil dýragarð þar sem sjá mátti kattardýr af öllum stærðum og gerðum, þó aðallega tígrisdýr. Þá reyndi hann fyrir sér í stjórnmálum árið 2018 þegar hann bauð sig fram í embætti ríkisstjóra Oklahoma.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.