Sport

Með hjálm og á hjóli í loka­undir­búningnum fyrir heims­leikana í Cross­Fit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir í fullum skrúða út í íslensku náttúrunni.
Anníe Mist Þórisdóttir í fullum skrúða út í íslensku náttúrunni. Instagram/@anniethorisdottir

Anníe Mist Þórisdóttir hefur séð ýmislegt á tíu fyrstu heimsleikunum sínum og núna eru elleftu heimsleikar hennar framundan. Hún undirbýr sig meðal annars fyrir heimsleikana út í íslensku náttúrunni

Heimsleikarnir hefjast eftir rétt rúmlegan mánuð og því eru næstu vikur mikilvægar í undirbúningi hennar fyrir heimsleikana í Madison.

Anníe Mist hefur skiljanlega æft mikið inni hjá sér eða í íþróttasalnum í CrossFit Reykjavík á meðan hún var að koma sér aftur í form eftir að hafa eignast barn í ágúst síðastliðnum.

Anníe veit aftur á móti af fyrri reynslu að það gæti verið vona á öllu frá Dave Castro sem ræður ríkjum þegar kemur að því að hanna æfingarnar fyrir heimsleikana.

Anníe birti athyglisverða mynd af sér í nýrri færslu þar sem sjá má hana í fullum fjallahjólaskrúða út í íslensku náttúrunni. Anníe ætlar að nýta sér íslenska sumarveðrið til að fara út og undirbúa sig utan íþróttasalsins.

„Við eyðum klukkutíma eftir klukkutíma inn í sal til að undirbúa okkur sem best fyrir prófin á heimsleikunum. Þótt ég njóti alveg ferlisins og þjáningarinnar þá er núna runninn upp einn af uppáhaldstímum mínum á árinu,“ skrifaði Anníe Mist.

„Núna nýt ég þess að fara út til að undirbúa mig fyrir allt það sem Dave Castro mun mögulega bjóða okkur upp í Madison. Ég er að vonast til þess að þeir komi aftur með hjólið, ekki fyrir brautarhjólreiðar heldur fyrir eina mjög langa hjólakeppni,“ skrifaði Anníe Mist eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×