Innlent

Vatns­þurrð í Gren­læk ógnar sjó­birtings­stofninum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Á myndinni má sjá lítinn poll sem eftir er í farveg læksins. Myndin var tekin þann 3. júní síðastliðinn.
Á myndinni má sjá lítinn poll sem eftir er í farveg læksins. Myndin var tekin þann 3. júní síðastliðinn. Hafrannsóknarstofnun

Alvarlegt ástand hefur skapast í Grenlæk í Landbroti vegna þurrka. Við vettvangsskoðun Hafrannsóknarstofnunar þann 3. júní síðastliðinn að efstu ellefu kílómetrar lækjarins, á svæðinu fyrir ofan Stórafoss, eru þurrir.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Hafrannsóknarstofnunar. Vatnalíf hefur orðið illa úti vegna vatnsþurrðarinnar og hafa örungar, smádýr og fiskar drepist á öllu því svæði sem þornaði. Sjóbirtingsstofnar hafa orðið sérstaklega illa úti þar sem öll seiði á svæðinu hafa drepist, sem telja um tvo til þrjá seiðaárganga.

Nokkrar líkur eru taldar á að hluti stærri fiska hafi náð að forða sér neðar í lækinn þar sem vatn er til staðar en skaðinn sem hefur orðið af þessu mun koma í ljós síðar. Farvegur lækjarins er að mestu skraufaþurr og segir í tilkynningunni að lækurinn sjáist lítið utan einstakra þornandi smápolla.

Í þeim má sjá stöku lifandi fiska en talið er ljóst að þeir eigi ekki langra lífdaga að vænta, taki vatn ekki fljótlega að renna að nýju.

„Grenlækur er frjósamur lindarlækur með ríkulegu lífríki. Þar er einn stærsti sjóbirtingsstofn landsins og þar eru mjög verðmæt veiðihlunnindi. Vatnsbúskapur Grenlækjar er háður því að nægilegt vatn flæði úr Skaftá og út á Eldhraunið en ef svo er ekki þá á rennsli Grenlækjar til með að þrjóta,“ segir í tilkynningunni.

Á því svæði sem er nú þurrt eru ein helstu hrygningar- og uppeldissvæði sjóbirtings í læknum. Árið 2016 var sambærileg vatnsþurrð í læknum en á þeim tíma var hluti sjóbirtingsstofnsins genginn til sjávar og skilaði sér til baka síðsumars og um haustið til hrygningar þegar vatn var runnið aftur í lækinn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.