Erlent

Stjórn Biden heldur áfram að verja Trump í meiðyrðamáli

Kjartan Kjartansson skrifar
E. Jean Carroll stefndi Trump fyrir meiðyrði eftir að hann kallaði hana „lygara“ og „dræsu“ þegar hann hafnaði því að hafa nauðgað henni á 10. áratugnum.
E. Jean Carroll stefndi Trump fyrir meiðyrði eftir að hann kallaði hana „lygara“ og „dræsu“ þegar hann hafnaði því að hafa nauðgað henni á 10. áratugnum. AP/Seth Wenig

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna heldur því enn fram að þegar Donald Trump kallaði konu sem sakaði hann um nauðgun „dræsu“ og „lygari“ hafi það verið hluti af störfum hans sem forseti. Afstaða ráðuneytisins er óbreytt þrátt fyrir stjórnarskiptin í janúar.

E. Jean Carroll, þekktur pistlahöfundur, steig fram á sínum tíma og hélt því fram að Trump hefði nauðgað sér í stórverslun á Manhattan í New York á 10. áratugnum. Trump brást við með því að kalla Carroll „lygara“, „dræsu“ og „ekki mína týpu“. Carroll stefndi honum þá fyrir meiðyrði.

Í tíð Williams Barr, dómsmálaráðherra Trump, gengu lögfræðingar ráðuneytisins inn í málið og kröfðust þess að stefnu Carroll yrði beint að bandaríska ríkinu en ekki Trump persónulega. Trump hefði nefnilega kallað Carroll nöfnunum umdeildu sem hluti af opinberum störfum sínum sem forseti Bandaríkjanna.

Joe Biden, núverandi forseti, gagnrýndi inngrip ráðuneytisins í kosningabaráttunni í fyrra og sagði það óviðeigandi að það skipti sér af einkamáli sem varðaði persónulega hegðun Trump. Hann lofaði þó einnig að reyna ekki að hafa áhrif á ákvarðanir ráðuneytisins sem forseti.

Donald Trump hefur verið sakaður um að brjóta kynferðislega gegn fjölda kvenna í gegnum tíðina.AP/Alex Brandon

Fyrirlitleg hegðun geti verið hluti af starfinu

AP-fréttastofan segir að lögfræðingar dómsmálaráðuneytisins hafi haldið sig við fyrri afstöðu um að Trump ætti ekki að sæta persónulegri ábyrgð á ummælum sínum þegar meiðyrðamálið var tekið fyrir hjá áfrýjunardómstóli í gær.

Héldu lögfræðingarnir því fram að það rúmaðist innan verklýsingar forsetans að bregðast við ásökunum um persónulega hegðun þeirra sem geti skapað efa um hæfni þeirra til að gegna embætti.

„Jafnvel fyrirlitleg hegðun getur fallið innan sviðs starfsins,“ sögðu lögfræðingarnar í greinargerð sinni þar sem þeir viðurkenndu að Trump hefði notað „groddaraleg og dónaleg“ orð um Carroll.

Dómari á neðra dómstigi hafði áður úrskurðað að Trump gæti ekki skýlt sér bak við að hafa verið forseti þegar hann lét ummælin umdeildu falla. Lögmaður Carroll fordæmdi ákvörðun ráðuneytisins um að sitja fast við sinn keip og leyfa Trump að komast upp með að ljúga um hana.

„Á sama tíma og konur um allt landið stíga fram og draga menn til ábyrgðar fyrir árásir er dómsmálaráðuneytið að reyna að koma í veg fyrir að ég hafi sama rétt. Ég er reið! Ég er móðguð!“ sagði Carroll sjálf í yfirlýsingu.

Fjöldi kvenna hefur sakað Trump um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri áreitni í gegnum tíðina. Hann hefur ætíð hafnað sök, oft með gífuryrðum um ásakendur sína.


Tengdar fréttir

Staðfesta að þær hafi heyrt um meinta árás Trump

New York Times hefur rætt við tvær konur sem E. Jean Carroll trúði fyrir frásögn af kynferðislegri árás sem hún segist hafa orðið fyrir að hálfu Bandaríkjaforseta um miðjan 10. áratuginn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.