Innlent

Beina nú sjónum að reykjandi krabbameinssjúklingum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar

Í dag er tóbaksvarnardagurinn og þar sem reykingar ungmenna hafa nær þurrkast út á síðustu áratugum beinir Krabbameinsfélagið nú sjónum sínum að eldra fólki, þar á meðal krabbameinssjúklingum, sem eiga erfitt með að hætta að reykja.

Ásgeir Rúnar Helgason, dósent í sálfræði og lýðheilsuvísindum, hóf störf hjá Krabbameinsfélaginu 1984 með fræðslu fyrir grunnskólanema og þá reyktu langflestir í kringum hann, þar á meðal hann sjálfur.

„Þannig að ég hætti að reykja daginn sem ég byrjaði hjá Krabbameinsfélaginu,“ segir hann og að nú séu breyttir tímar. 

Á töflu frá 1978 má sjá að reykingar eru mælanlegar allt niður í tíu ára aldur. Einnig að nærri helmingur sextán ára barna reyki og þar af þriðja hvert daglega.

Fyrir ríflega fjörutíu árum reykti þriðji hver sextán ára unglingur daglega. Í dag reykja í mesta lagi 2-3% unglinga á sama aldri.

Ásgeir segir öfluga fræðslu síðustu áratugi hafa skilað sér í góðum árangri.

„Þetta hefur gengið það vel að í dag reykja kannski 2-3% krakka sem eru að klára tíunda bekk, í mesta lagi. Það hefur orðið algjör bylting.“

Áhyggjur voru af veipinu á tímabili en Ásgeir segir það ekki hafa náð fótfestu. Í staðinn hafi komið nikótínpúðar.

„En ég hef enga trú á því að það festist. Það er meira verið að nota þá - og á að nota þá - til að hætta að reykja.“

Enn er þó verk að vinna. Nú leggur Krabbameinsfélagið mikla áherslu á að hjálpa krabbameinssjúklingum að hætta að reykja.

„Það er mjög erfitt fyrir krabbameinssjúklinga að hætta að reykja því það fylgir því svo mikið stress að vera með krabbamein. Þannig að við höfum verið að þróa sérhæfar aðferðir til að styðja fólk í svona erfiðri aðstöðu og það er allt öðruvísi prógram en við vorum með áður, meira styðjandi og við höfum oftar samband við fólkið.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.