Innlent

„Við vorum aug­ljós­lega ekki vel­komnir og þeim er sama um okkur“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Elínborg segir að hún hafi ekki verið með sérlega mikla list fyrir kömum Áslaugar.
Elínborg segir að hún hafi ekki verið með sérlega mikla list fyrir kömum Áslaugar. samsett/aðsend/instagram

Ein þeirra sem mætti ó­vænt í kosninga­kaffi Ás­laugar Örnu Sigur­björns­dóttur dóms­mála­ráð­herra síðasta laugar­dag til að spyrja hana spjörunum úr um mál­efni hælis­leit­enda, segir við­tökurnar í kaffinu ekki hafa verið eins góðar og fram­bjóð­endur Sjálf­stæðis­flokksins vildu meina við Vísi um helgina.

Þó þeim hafi vissu­lega verið boðið kaffi eftir nokkra stund var tón­listin hækkuð í botn í salnum þegar þau mættu og fóru að spyrja ráð­herrann spurninga sinna, hringt var á lög­regluna og þau spurð hvort þeim þætti virkilega við­eig­andi að mæta í kaffið.

„Við sögðum að okkur þætti það við­eig­andi, já, þegar þetta er opið kaffi sem Ás­laug Arna heldur fyrir próf­kjör. Og ég efast ekki um að flótta­mennirnir sem voru þarna inni voru fólkið sem átti hve mest undir hennar á­kvörðunum af öllum þarna. Þannig ef ein­hver átti erindi við hana þennan dag þá voru það þeir,“ segir Elín­borg Harpa Önundar­dóttir, að­gerða­sinni í mál­efnum flótta­manna. 

Þrír flóttamenn á götunni vildu svör

Hópurinn taldi um tíu manns en í honum voru meðal annars þrír þeirra fjór­tán flótta­manna sem búa á götunni eftir að Út­lendinga­stofnun á­kvað að svipta þá allri þjónustu.

„Það var málið sem við vorum að spyrja ráð­herrann út í, ekki út­lendinga­lög­gjöfin eins og hún vildi meina heldur hvers vegna hún gripi ekki í taumana þegar stofnun á hennar vegum hefði hent þeim á götuna, hvort hún teldi það vera lög­legt og hvort henni þætti þetta mann­úð­leg stefna.“

Vísir greindi frá því á laugar­daginn að um tíu manna hópur hefði ruðst inn í kosninga­kaffi Ás­laugar Örnu með símana á lofti til að spyrja hana út í mál­efni hælis­leit­enda. Af þeim gestum kaffi­sins sem Vísir heyrði frá mátti skilja að nokkuð fát hefði komið á gestina við upp­á­komuna.

Í sam­tali við Vísi vildu þær Ás­laug Arna og Hildur Sverris­dóttir, aðstoðarmanni ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, meina að at­vikið hefði ekki verið svo ó­þægi­legt, vel hefði verið tekið á móti hópnum og honum boðið kaffi eins og hverjum öðrum gestum.

Engin afskipti lögreglu

Sú var ekki alveg raunin að sögn Elín­borgar: „Jú, jú, okkur var boðið kaffi þarna eftir smá tíma en þegar við mættum og fórum að spyrja Ás­laugu út í þessi mál var tón­listin í salnum hækkuð í botn svo enginn heyrði neitt í neinum. Þegar við svo vildum fara að lækka tón­listina var okkur meinaður að­gangur að því.“

Þá hafi ein­hver á svæðinu greini­lega hringt í lög­regluna því þegar hluti hópsins fór fyrr úr kaffinu voru þar lög­reglu­bílar fyrir utan. „En við vorum svo prúð að þeim hefur greini­lega ekki þótt nein á­stæða til að hafa af­skipti af okkur,“ segir Elín­borg.

Hún tekur þó fram að Áslaug og Hildur hafi verið kurteisar við hópinn, það hafi aðallega verið aðrir gestir sem brugðust illa við heimsókninni.

Sorglegt að heyra svör ráðherrans

Hún segir til­gang heim­sóknarinnar hafa verið þann að fara með flótta­mennina þrjá sem búa á götunni til að fá svör frá ráð­herranum um á­kvarðanir Út­lendinga­stofnunar. 

Eins og greint hefur verið frá á­kvað stofnunin að svipta fjór­tán flótta­menn allri þjónustu, fæði og hús­næði, sem neituðu að fara í Co­vid-19 próf þegar átti að senda þá úr landi til Grikk­lands.

Elín­borg segir svör ráð­herrans hafa verið í þá átt að hún gæti ekki gripið inn í mál þessara flótta­manna því hún yrði að gæta jafn­ræðis. 

„Þar á hún við að nú þegar er búið að senda flótta­menn aftur til Grikk­lands sem voru boðnir þessir afar­kostir og hún vildi þá meina að það væri ó­sann­gjarnt fyrir þá ef stofnunin stæði ekki við hótanir sínar um að svipta menn þjónustu sem vildu ekki fara.“

Hún segir það hafa verið sorg­legt að heyra mann­eskju sem hefur ör­lög þessara flótta­manna í höndum sér tala á þeim nótum að henni þætti það „jafn­ræði“ að henda þeim á götuna. 

„Þetta var ó­trú­lega skrýtið og sorg­legt. Og þeir voru sorg­mæddir eftir þessa heim­sókn. Sögðu við okkur: Við vorum aug­ljós­lega ekki vel­komnir þarna og þeim er sama um okkur.“


Tengdar fréttir

Palestínumanni vísað á götuna eða til Grikklands

Palestínumaður, sem hefur verið synjað um hæli hér á landi, segist vilja búa á Íslandi með fjölskyldu sinni sem er enn á Gaza. Til stendur að senda hann aftur til Grikklands þar sem lögmaður segir aðstæður vera óboðlegar og mun verri en áður en faraldurinn skall á.

Út­­lendinga­­stofnun getur ekki hætt að senda til Grikk­lands

Út­lendinga­stofnun telur sig al­gjör­lega bundna af gildandi lögum sem hún fylgir í máli Palestínu­mannanna fjór­tán sem voru sviptir allri þjónustu stofnunarinnar, hús­næði og fæði. Hún geti ekki tekið mál ein­stak­linganna til efnis­legrar með­ferðar því þeir hafi hlotið vernd í Grikk­landi og staða faraldursins þar sé ekki nægileg ástæða til.

Út­­lendinga­­stofnun geti vel hætt að senda fólk til Grikk­lands

Rauði krossinn furðar sig á málflutningi Út­lendinga­stofnunar og túlkun hennar á reglu­verki í kring um hælis­um­sóknir á Ís­landi. Lög­fræðingur hjálpar­sam­takanna og tals­maður um­sækj­enda um al­þjóð­lega vernd segir það ekki rétt sem kom fram í máli Út­lendinga­stofnunar í við­tali Vísis sem birtist í morgun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.