Tíska og hönnun

Er hægt að hanna heilsu? Manngert umhverfi og lífsgæði

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Viðburðurinn Er hægt að hanna heilsu? er hluti af HönnunarMars 2021.
Viðburðurinn Er hægt að hanna heilsu? er hluti af HönnunarMars 2021.

Arkitektafélag Íslands (AÍ), Félag Íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) og Félag húsgagna-og innanhúsarkitekta (FHI) sameina krafta sína á HönnunarMars í ár og halda málstofu í dag um heilsu og hönnun.

Streymt verður frá viðburðinum hér á Vísi og verður hægt að horfa á útsendinguna í spilaranum hér fyrir neðan þegar málstofan hefst. Dagskrá viðburðarins má finna neðar í fréttinni.

Nútímaarkitektúr varð til sem svar við ákveðnum heilsufarsvandamálum eins og lélegu hreinlæti, mengun, lélegum birtuskilyrðum, óhreinu vatni og skorti á holræsakerfi. Á 21. öld stöndum við frammi fyrir nýjum vandamálum sem snúa að lýðheilsu. Hvernig ætla arkitektar að bregðast við þessu?

Vegna aðstæðna í samfélaginu þarf að bóka sæti fyrirfram á fyrirlestrana. Hvert sæti þarf að vera rekjanlegt svo upplýsingar um nafn, síma og kennitölu þarf nauðsynlega að fylla út. Vinsamlegast athugið að hver og einn fyrirlestur stendur sjálfstætt. Ef viðkomandi ætlar að hlýða á alla fyrirlestrana í Grósku, þá þarf sá og hinn sami að bóka sig á alla fyrirlestra.

Uppfært: Útsendingunni er lokið en hægt er að horfa á upptöku af viðburðinum hér fyrir neðan.

Dagskrá

10.00 Lóðréttir garðar – Gróðurveggir á Íslandi

Magnús Bjarklind, skrúðgarðyrkjumeistari og garðtæknir

Geta gróðurveggir haft áhrif á loftgæði, rakastig og hljóðvist? Magnús fer yfir reynslu og þekkingu á gróðurveggjum hérlendis, ólíka gerð gróðurveggja, búnað og plöntur og beinir sjónum sínum sérstaklega að nýjum gróðurvegg í húsnæði Grósku. Magnús hefur langa reynslu og þekkingu á rætkun gróðurs í borgarumhverfi, í og á byggingum þar sem rými er takmarkað og aðstæður krefjandi.

10.30 Áhrifamáttur heilandi garða við heilbrigðisstofnanir

Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir, vöruhönnuður og umhverfisskipulag (BS)

Áhrifamáttur gróðurs og garða er ekki lengur byggður á getgátum. Fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á raunverulegan árangur heilandi garða við heilbrigðisstofnanir á bata skjúklinga. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að heilandi garðar geta haft veruleg áhrif í meðferð andlegra veikinda vegna álags og streitu, þar sem gróður og „náttúrulegt umhverfi“ geta haft áhrif á hormónaframleiðslu okkar.

11.00 Dagsbirta í borg – áhrif á vellíðan og mannlíf

Anna Sigríður Jóhannsdóttir, arkitekt

Mannfólkið lifir ekki vel í eilífum skugga, þess vegna þurfum við að velja okkur stað þar sólin nær að senda geisla sína. Í skipulagi borgarinnar þarf að skapa þessi rými, sólrík og skjólgóð rými fyrir fólk til að njóta útiveru og samneytis. Staði þar sem sólargeislar dansa og borgarlífið lifnar við. Erum við að skapa þessi rými á nýjum svæðum borgarinnar, er sólin að ylja okkur og gleðja? Anna Sigríður Jóhannsdóttir arkitekt hefur starfað í faginu frá námslokum 1992, lengst af sem meðeigandi VA arkitekta. Hún skrifaði bókina „Dagsbirta sem vistvænn birtugjafi“ og er nú að vinna að rannsóknarverkefni um dagsbirtu í skipulagi og byggðu umhverfi.

11.30 Ljósgæði = lífsgæði

Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, innanhúsarkitekt og lýsingarhönnuður

Vissirðu að við verjum að meðaltali 90% af tíma okkar innandyra? Lýsing er ein af meginstoðum í mannvirkjagerð og hefur mikil áhrif á líf okkar allt frá því að hafa góð áhrif á starfsorku yfir í að halda vöku fyrir okkur á sumarnóttum. Rósa Dögg er með 12 ára reynslu í mannvirkjageiranum og víðtæka sérþekkingu á sviði lýsingarhönnunar. Rósa hefur leitt fjölda lýsingarverkefna hérlendis og erlendis og leggur áherslu á að lýsingarhönnun sé í samspili við arkitektúrinn og umhverfi, skapi upplifun, sjónræn þægindi og góða ljósvist.

12.00-13.00 Hádegishlé

13.00 The Star Homes Project: A randomised clinical trial investigating the effect of architecture on diseases in Africa

Jakob Brandtberg Knudsen, arkitekt og forseti arkitektúrdeildar í Konunglega danska Listaháskólans – Arkitektúr, hönnun og varðveislu

Næstu áratugi mun mest fólksfjölgun eiga sér stað í Afríku. Íbúafjöldi mun þá tvöfaldast, og ná 2,5 milljörðum manna fyrir árið 2050. Þetta kallar á yfir 400 milljónir nýrra heimila. Star Homes verkefnið er dæmi um hvernig hægt er að mæta þessum kröfum með hagkvæmu, sjálfbæru húsnæði sem einnig styður við heilbrigði íbúanna. Aðalrannsóknarefni Jakobs hefur í gegnum tíðina verið hvernig má byggja brýr milli lýðheilsu og arkitektúrs, til þess að skapa hagkvæm, heilsusamleg og sjálfbær heimili í hitabeltisloftslagi. Jakob hefur unnið í þverfaglegum teymum sem hafa birt fræðigreinar í virtum vísindatímaritum eins og Nature, The Lancet Planetary Health, og PLOS Medicine. Fyrirlesturinn verður haldinn á ensku.

13.30 Crisis and Chaos: Potential Fundamental Ingredients for Solace in our Surroundings

Jill Pable, PhD, prófessor og deildarforseti í innanhúsarkitektúr í Florida State University

Getur hið byggða umhverfi verið valdeflandi? Haft áhrif á sjálfsmynd manns? Jafnvel öryggistilfinningu? Jill hefur síðastliðin ár rannsakað áhrif hins byggða umhverfis á fólk sem verður fyrir áföllum í lífinu og í kjölfarið upplifað rótleysi og kvíða. Í fyrirlestri sínum mun Jill fjalla um nýjar hugmyndir í sálfræði um skynjun okkar og reynslu og hvernig manngert umhverfi getur haft bein áhrif á líðan fólks og þá sérstaklega á erfiðum tímum í lífi þeirra. Fyrirlesturinn verður haldinn á ensku.


Tengdar fréttir

Innblásin af sólinni, sundferðum og sumarævintýrum

„Nýja línan okkar er algjör gleðisprengja. Hún er innblásin af sólinni, strandpartýum, sundferðum og sumarævintýrum,“ segir hönnuðurinn Hildur Yeoman um línuna SPLASH! Sem hún sýnir á HönnunarMars í ár.

Dagur eitt á HönnunarMars

Fyrsti hátíðardagur HönnunarMars 2021 er runninn upp og sýningarstaðir flestir tilbúnir að taka úr lás og hleypa viðburðaþyrstum gestum inn að skoða það ferskasta sem íslenskir hönnuðir hafa upp á að bjóða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×